Þegar Esther Helga er spurð hvernig hún sjái starfsemi nýju MFM-miðstöðvarinnar við Ármúla fyrir sér, svarar hún því til að stefnan sé til að byrja með fyrst og fremst sú að veita ráðgjöf og fræðslu í formi viðtala og námskeiða.
Hún gerði sér svo vonir um að fljótlega verði hægt að opna meðferðarstöð fyrir matarfíkla líkt og SÁÁ tókst að gera fyrir áfengissjúklinga.
„Mitt starf mun felast í því að aðstoða fólk við að skoða hvort það eigi við vanda að stríða eða ekki. Það er auðvitað fyrsta skrefið.
Í framhaldinu þarf að ráðleggja fólki hvaða leiðir eru í stöðunni og hvert það geti leitað eftir aðstoð, en til þess að snúa vörn í sókn þarf matarfíkillinn auðvitað fyrst og fremst að vilja hjálp sjálfur til þess að taka á vandanum,” segir Esther, sem segist lengst af hafa starfað við að kenna lagvissum sem laglausum söng, en sjálf lærði hún söng og tónlistarfræði við Indianaháskólann í Bloomington.
En nú er Esther að ljúka námi við Ráðgjafaskóla Íslands og er nýútskrifuð af Bautar-gengisnámskeiði Impru um stofnun og rekstur fyrirtækja.