Matarfíkn

Missti nærri helminginn af sjálfri sér á tveimur árum
Lífið snérist bara um matartengdar hugsanir
Matarfíkillinn Esther Helga Guðmundsdóttir ráðgerir að hjálpa öðrum matarfíklum til sjálfshjálpar eftir að hafa sjálf náð undra-verðum árangri í baráttu sinni við fíknina.
Hún sagði Jóhönnu Ingvarsdóttur frá átökum við matarfíkn.

Esther Helga Guðmundsdóttir var orðin 48 ára gömul og ríflega 123 kíló þegar hún loksins fann lausnina á matarfíkninni, sem hún hafði verið að burðast með allt frá unglings aldri. Nú er Esther Helga orðin þremur árum eldri og 58 kílóum léttari.
Hún hefur verið í rúm 3 ár í bata.

Nálin staðnæmist nú í 65 kílógrömmum þegar hún stígur á vigtina og nú ætlar Esther að fara að miðla öðrum af reynslu sinni þar sem henni finnst vanta ráðgjöf og fræðslu fyrir þá sem telja sig eiga í vanda með mat.

Í þeim tilgangi hefur hún nú opnað MFM-miðstöðina, sem stendur fyrir meðferðar- og fræðslumiðstöð vegna matarfíknar.

Matarfíkn er stigversnandi sjúkdómur

„Hafi maður einlæglega reynt að hætta að nota ákveðin matvæli og það ekki tekist, má búast við því að sá hinn sami eigi við matarfíkn að etja. Þeir fá hinsvegar fæstir varanlega lausn sinna mála nema leita sér hjálpar,” segir Esther Helga, sem sjálf hefur prófað alla mögulega og ómögulega megrunarkúra auk stólpípuhreinsana í gegnum tíðina.
Henni tókst að snúa vörn í sókn með því að leita til sjálfs hjálparsamtaka, sem vinna eftir 12 spora kerfinu.

Þó erfitt sé nú að ímynda sér að Esther hafi nokkru sinni þurft að glíma við offitu, gerir hún sér grein fyrir því að matarfíknin er lífstíðarverkefni, sem hún verður að vinna með frá degi til dags. „Ef ég borða einn hömlulausan bita á ég á hættu að verða fíkninni aftur að bráð.

Ég undirbý næsta dag með tilliti til þess hvað ég ætla að borða og tilkynni það stuðningsaðila, vigta og mæli allan mat, borða þrjár máltíðir á dag og ekkert á milli mála nema vatn, kaffi eða te og stundum sykurlaust gos. Sykur, hveiti, kornmeti og rjómi er eitur fyrir mig og veldur mér fíkn.

Flestan annan mat má ég borða og get viðurkennt það nú að ég hef aldrei borðað og liðið jafnvel af nokkrum mat. Ég má nota sojamjöl og hveitikím og get þar af leiðandi búið til mínar eigin pönnsur, en fæðið mitt er svo sannarlega engin hungurlús.

Það er svo frábært fyrir okkur matarfíklana að fá mikinn mat þegar við höfum eytt lífinu í stanslausri megrun og hungri, en samt alltaf sokkið dýpra og dýpra.”

Samkvæmt tölum Lýðheilsustöðvar er um helmingur þjóðarinnar of þungur.

„Auðvitað á allt þetta fólk ekki við matarfíkn að etja. Flestir geta sett sér mörk og farið eftir þeim. En þeir sem eru komnir í vítahring fíknarinnar geta það ekki án hjálpar.

Matarfíkn er stigversnandi sjúkdómur, sem leiðir smátt og smátt til þess að maður missir fótana, við verðum síðan eins og segir í AA bókinni, eins og maður sem hefur misst báða fæturna, það vaxa aldrei nýir í staðinn. Við þurfum því að læra nýjan lífsstíl. Fyrst og fremst þurfum við að komast í fráhald frá fæðutegundum sem valda okkur fíkn og breyta því hvernig okkur líður. Síðan þarf að skoða tilfinningalega og andlega þáttinn. Hvað er undirliggjandi, hvað olli því að við fórum að nota mat til að láta okkur líða betur?”