Grein sem birtist á Pressunni, í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu

Í tilefni þess að MFM miðstöðin stendur fyrir málþingi um matar- og sykurfíkn  þann 7. apríl næstkomandi, langar mig að vekja athygli landsmanna á þessu málefni. MFM miðstöðin er meðferðar og fræðslumiðstöð sem hefur það markmið að vinna með einstaklingum sem eru að berjast við matar- og sykurfíkn og átraskanir.  Miðstöðin vinnur bæði með líkamlegar og andlegar hliðar sjúkdómsins, sem og tilfinningalega þætti.

Matar- og/eða sykurfíkn er fíknisjúkdómur.  Sjúkdómurinn hefur bæði líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar hliðar. Sá sem á við matarfíkn að stríða ánetjast matvælum með efnafræðilegum hætti og líkami einstaklinga með matarfíkn vinnur lífefnafræðilega öðruvísi úr mat heldur en líkami „venjulegra“ einstaklinga.

Margir matarfíklar hneigjast til þess að ánetjast ákveðnum tegundum matvæla, s.s. sykri, hveiti, glúteni, fitu, salti, koffíni og/eða mat í miklu magni, rétt eins og alkóhólistinn sem ánetjast alkóhóli eða vímuefnum. Eftir því sem fíknin þróast og ágerist, verða matarfíklar vanmáttugir yfir hinni líkamlegu löngun sinni og er þá stutt í þráhyggjuna og afneitun á því sem er að gerast. Þráhyggjan birtist oft með þeim hætti að matarfíkilinn er gagntekin af mat. Hugsanir hans fara í miklum mæli að snúast um að ná sér í, undirbúa og borða ákveðin matvæli. Þá er sífellt verið að velta fyrir sér hvað sé hollt og hvað sé óhollt og hugsanir um komandi líkamsræktarátök verða yfirgnæfandi: Á morgun skal ég byrja, eftir helgi, á mánudaginn, eftir páskafrí,jólafrí, sumarfrí o.s.frv. Þráhyggju gagnvart mat fylgir nær undantekningarlaust þráhyggja gagnvart útiliti og þyngdarbreytingum.

Sem dæmi um nokkur einkenni og merki um matarfíkn má nefna óeðlilegar langanir í tiltekin matvæli, röskun á sjálfsmynd, lotu- og laumuát, ásamt almennri skömm og ótta í tengslum við mat. Sumir matarfíklar stela mat eða peningum til að kaupa mat, á meðan aðrir upplifa vanlíðan í aðstæðum þar sem þeir hafa ekki aðgang að mat. Matarfíklar breiða oft yfir tilfinningar sínar þegar verið er að tala um mat, át eða þyngd og leitast við að leiða umræðuna að einhverju öðru. Þar eru tengslin á milli sjúkdómsins og launungarinnar augljós. Fíknin sjálf þrífst hins vegar á óheiðarleika og einangrun.

Einstaklingur sem er að kljást við matar- eða sykurfíkn verður vonlaus, pirraður og niðurdreginn þegar allar tilraunir til að stjórna mataræðinu bregðast.  Það að hreyfa sig meira og borða minna, jafn einfalt og það virðist, er ekki að ganga sem skyldi. Sú leið hefur verið fullreynd og er ekki að virka. Eftir situr niðurbrotinn einstaklingur, uppgefinn á því að reyna sömu lausnirnar aftur og aftur, en án árangurs. Slíkur einstaklingur þarf hjálp við að takast á við tilfinningar sínar og hugsanir.

Heilbrigðiskerfið býður ekki uppá þær lausnir sem matarfíklar þarfnast. Vissulega er til fullt af fólki sem náð hefur árangri með því að hreyfa sig meira og borða minna en eftir situr stór hópur fólks með sveitt enni en engan árangur. Spurningin sem eftir situr er þá sú, hvernig eigi að hjálpa þeim einstaklingum? Svarið við þeirri spurningu birtist mér þegar ég skráði mig í meðferð vegna matarfíknar hjá MFM miðstöðinni.

Ég hef verið í bata frá matar- og sykurfíkn í að verða 3 ár og er nú 35 kg léttari heldur en þegar ég fyrst skráði mig í meðferðina. Ég var búin að reyna alla megrunarkúra, átök og skyndilausnir sem fyrirfundust, en án árangurs. Um það geta bæði vinir og ættingjar vitnað. Alltaf sat ég hins vegar eftir með bullandi samviskubit og hugsanir um hversu ömurleg ég væri að geta ekki staðið mig í stykkinu. Mergur málsins var hins vegar sá, að þær lausnir sem ég reyndi, voru einhverra hluta vegna ekki að virka fyrir mig. Það var ekki fyrr að ég hóf meðferð mína hjá MFM miðstöðinni, að ég viðurkenndi vanmátt minn gagnvart matarfíkninni og hóf hina löngu vegferð í átt til bata.

Í dag líður mér vel. Ég hef náð sátt við sjálfa mig og held mig frá þeim matvælum sem vekja upp í mér fíknina. Ég tek einn dag í einu og geri mér grein fyrir að vegurinn er þröngur, en hann mun ég feta engu að síður. Fyrir þá sem þetta lesa og sjá sjálfa sig í mér, vil ég bara segja eitt. Ekki gefast upp. Fyrst ég gat náð árangri, þá getur þú það.

Lilja Guðrún Guðmundsdóttir
Fíkniráðgjafi