Saga mín er eins og saga okkar allra og ég sem hélt að ég væri svo einstök, bæði í hugsun og matarmálum.

Ég var ekki feit sem barn, eða unglingur en var örugglega ekki mjög liðug, því ég var aldrei með í neinum hópaleikjum, skildi reyndar aldrei reglurnar og var ómögleg í að hlaupa,var oft notuð sem „stikkpilla“ í leikjum.  En ég upplifði mig hinsvegar mjög feita.  Ég var mjög hávaxin strax sem barn og orðin 175 um fermingu, stærri en strákarnir í bekknum mínum.  Vinkonur mínar voru meðal stelpur á hæð og grannar,  ég miðaði hinsvegar við að við vorum ekki að nota sömu fatastærðir.  Sorglegt en satt,  sjálfsmyndin var ekki sterk,  ég fór þarna á miðjum unglingsaldri að nota óæskilegar aðferðir til að léttast, Bullimía var ekki þekkt á þessum tíma enda 40 ár síðan, samt var ég  tágrön,  það sé ég á myndum frá þessum tíma.

Ég eignast fjögur börn á 12 árum og bætti hressilega við mig á þremur meðgöngum,  var alltaf að borða fyrir tvo. J  á milli var svo farið í „átak“  og ég léttist en þyngdist strax aftur og bætti svo 2-4 kg aukalega á mig í hvert skipti,   Pillukúr, Línan, Súpukúr,  Danski-kúrinn, Herbalif,  og hvað þetta heitir nú allt saman,  það var engin maður með mönnum ef hann var ekki í einhverjum kúr eða átaki.

Árið 2012 verða svo miklar breytingar í lífi mínu,  ég greinist með of háan blóðþrýsting og fæ lyf við því, ásamt því að vera með vefjagigt,  Ég fór að labba, í einkaþjálfun, en ekkert gekk að léttast og áfram þyngdist ég,  Um mánaðarmót nóv/des greinist ég svo með liðagigt og einnig sykursýki 2 og  þurfti að mæla blóðsykur 4x á dag.  Nú leist mér ekki á blikuna enda orðin 125 kg. á þyngd.   Þarna ákvað ég og sagði lækninum það að ég ætlaði að takast á við mataræðið og vildi ekki fá fleiri lyf.  Hann sagði að það væri svo sem ágæti en ég skyldi koma í mælingu á milli jóla og nýja árs.  Ég hef aldrei orðið eins hissa, hafði bara ætlað að byrja eftir jólin!  En hann benti mér á að þetta væru þá fyrstu jólin sem ég, af vonandi nokkrum þar sem ég þyrfti að horfast í augu við mataræðið.   Þetta var erfiður desember mánuður, en þar sem ég hafði haft sykursjúkt barn inn á heimilinu í eitt ár, kunni ég vel að elda þannig mat.  Ekki léttist ég neitt þennan desember, en ég þyngdist heldur ekki neitt og fannst mér það nú vera viss sigur.  Svo liðu janúar og febrúar og ég missti 7 kg.  Alltaf þurfti ég að vera mæla blóðsykurinn.

Í lok febrúar fékk ég símhringingu, hún var stutt og laggóð „Ég er búin að ská þig á námskeið hjá MFM-miðstöðinni á morgun inná Stóru-Tjörnum, það kostar X mikinn pening og þú færð endurgreitt hjá verkalýðsfélaginu okkar.  Þegar þetta námskeið er búið þá getur þú farið í OA eða GSA.  Ef þú ætlar ekki þá afpantar þú sjálf“

Í stuttu máli ég fór á námskeiðið og hef síðan 2. Mars 2013 vigtað og mælt þrjár máltíðir á dag.

Þetta hefur ekki verið auðvelt,  ég grét mig í svefn fyrsta kvöldi,  vissi ekki hvað ég væri búin að koma mér út í.  Eina sem ég hugsaði var „aldrei framar kolvetni eða áfengi“  en smá saman fékk ég mikla fræðslu og góðan stuðning.  Ég fékk greiningu sem matarfíkill og það opnaðist nýr heimur fyrir mér, því ég hef alltaf haldið því fram að það væri nú gott að ég væri ekki áfengisfíkill því þá væri ég í ræsinu, og eins að ég reykti ekki því ég myndi þurfa tvo pakka á dag.

Samt átti ég erfitt með að sætta mig við orð eins Hömlulaus ofæta.  Puff, puff ég var ekki ofæta fannst mér,  mér fannst orðið ljót og særandi-  Hver og einn verður sannleikanum sárreiðastur – voru orð sem komu seinna upp í huga mér.  En með því að sækja fundi og vinna í 12 sporunum hefur mér orðið ljóst hvílíkur fíkill og hömlulaus ég var.   Allstaðar í öllum skápum, skúffum, handavinnupokum,  bílnum, og í vinnunni var „stöffið mitt“.  Ég faldi þetta fyrir öðrum á heimilinu svo ég gæti átt það sjálf í næði þegar eingin sá til,  matur hefur aldrei verið mitt vandamál en kolvetnin upp til hópa eru mínir verstu óvinir.

Ég verslaði inn til að eiga fyrir gesti, en þeir fengu ekki endilega neitt af því sem keypt var inn nema kannski eitthvað smá.  Ég hef verið mjög dugleg að baka ofan í fjölskylduna mína og líka ofan í sjálfan mig. J   Í dag hendi ég afgöngum í ruslatunnuna en áður var ég ruslatunna-heimilisins.

Baðvigtin stjórnaði deginum hjá mér, ég vigtaði mig á hverjum morgni, steig létt á hana og vonaði að hún sýndi góða tölu, ef ekki þá var dagurinn ónýtur hvort sem var og hægt að borða eins og mann listi.  Vigtin var minn versti óvinur.

Í dag borða ég þrjár vigtaðar og mældar máltíðir á dag, og ég hef aldrei borðað eins mikið um ævina.  Mér líður vel, ég sæki fundi reglulega og er að vinna í  12 sporunum í annað skipti.

Í dag er ég laus við sykursýki,(þarf ekki að stinga mig 4x á dag)  of háan blóðþrýsting, astma, steralyf, og fyrir utan hvað tannlækna kostnaður hefur dregist saman J í bónus við þetta allt er ég svo  45 kg. léttari

Ég hef mikið meira þrek,  og stend með sjálfri mér.  Ég er enn með gigt en ræð mikið betur við alla verki út frá henni.  Á hverjum degi  skrifa ég niður og þakka fyrir þrjú atriði sem hafa gerst yfir daginn.  Ég er búin að setja mér markmið og skrifa þau niður. Minn æðri máttur hjálpar mér í gengum daginn. Baðvigtin stjórnar engu lengur, en Borðvigtin er minn besti vinur í dag J

Lífið heldur áfram og það koma jól og páskar,  það kom gleði og sorgir, en ég er betur í stakk búin til að takast á við allt saman núna.