Ég var svo lánsöm að kynnast starfsemi MFM miðstöðvarinnar á vordögum 2011, var leidd þangað inn. Ég er granna hávaxna konan sem hefur alltaf verið í kjörþyngd en var að ofgera líkamanum með ómældu sykuráti. Í veislum var aðal freistingin marenstertur með miklum rjóma og súkkulaði og gat ég torgað allt að hálfri slíkri tertu á einu bretti og fór létt með það. Ég áttaði mig líka á því að ég hafði fíkn í salthnetur og rúsínur og gat ég torgað þremur til fjórum slíkum pokum dag hvern. Í dag sniðgeng ég alveg þessar fæðutegundir því ég veit hvaða áhrif þær hafa.
Ég hef alltaf verið í líkamsrækt og hreyft mig mikið og hef því brennt miklu.
Ég áttaði mig á því þarna að þetta var orðið vandamál. Vanlíðanin var slík. Sú hugsun var komin í kollinn á mér að ég væri að borða á mig gigt því ég var með verki allsstaðar, skapsveiflur, svaf illa á nóttunni og svo var sjónin farin að hraka töluvert. Mér var talið trú um að það væri nú bara aldurinn þannig að ég dreif mig í að panta mér tvískipt gleraugu.

Það er ekki það að ég hafi ekki verið í hollustunni. Ég gat tekið mjög flottar skorpur í því að borða bara hollt, það entist yfirleitt ekki lengur en mánuð í senn þá datt það út og ég fór í kökurnar og súkkulaðið.
Eftir að ég kynntist meðferðinni hjá MFM þá hef ég lært að ég verð að hafa ramma utan um matinn minn til að fara ekki út af sporinu, að öðrum kosti væri ég komin í ógöngur á ný. Ég er orðin mjög meðvituð um minn eigin líkama og hvernig hann bregst við en ég geri mér líka grein fyrir að ég get fallið hvenær sem er og tek því einn dag í einu.
Ég er án verkja, sef mun betur, er jafnari í skapinu og gleraugun standa ónotuð í skúffunni.

Það sem ég hef líka lært af þessari breytingu á lífstílnum er að ef þú ert ekki í norminu eins og hinir þá ögrar þú fjöldanum. Þú ert öðruvísi. Þá er svo mikilvægt að standa með sjálfum sér alla leið sama hvað hver segir. Þú og þinn nýji lífstíll er það sem skiptir máli fyrir þig. Ég hef fengið athugasemdir neikvæðar og jákvæðar, sumir hafa sagt það hreint út hvað ég sé grönn, þá spyr ég á móti: ,, ef ég væri feit myndir þú segja það?“ Fólk er ekki að átta sig á að Það getur verið af sama toga. Flestir hrósa fyrir úthaldið og staðfestuna og það er það sem skiptir máli.

Helga
42 ára