Ég er búin að berjast við aukakíló og brenglaða líkamsímynd síðan snemma á unglingsárum og hef verið með allar gerðir átraskanna sem byrjuðu á svipuðum tíma. Ég náði að halda mér í kjörþyngd í nokkur ár í menntaskóla en þá æfði ég eins og atvinnu íþróttamaður ásamt því að svelta mig, kasta upp, telja kaloríur, reikna prótein og drekka máltíðardrykki á víxl við átköstin mín. Líklegast er ég búin að vera matarfíkill alla ævi því ein af fyrstu minningunum mínum er þegar ég er að hlaupa á klósettið til að æla eftir að hafa borðað yfir mig ca 3 ára gömul.

Ég byrjaði í fráhaldi aðallega til að grenna mig. Ég fann MFM miðstöðina á netinu og las yfir skimunarlistann fyrir matarfíkla og var ansi ánægð þegar ég komst að því að 19 af 20 atriðum áttu við um mig. Það eina sem vantaði uppá var að læknarnir mínir væru búnir að gefast uppá mér sem stafar auðvitað að því að átraskanirnar mínar hafa gert að verkum að ég hef í mesta lagi farið 20 kg yfir kjörþyngd. Þessi skimun gladdi mig þar sem fráhald hlyti þá að hjálpa mér að grennast fyrst að ég var með svona mörg einkenni matarfíkils. Ég ákvað því að skrá mig í meðferð hjá MFM miðstöðinni en var mjög treg til að gefa upp ýmsa hluti og vildi bara skuldbinda mig í mánuð til að byrja með. Mér leið síðan ágætlega í fráhaldinu og ákvað að vera lengur og eftir 2 mánuði var ég búin að missa 10 kg. Ég var himinlifandi með árangurinn en ennþá ekki sannfærð um að ég þyrfti að halda áfram að vera í fráhaldi til að halda áfram að líða svona vel líkamlega og andlega. Ég var ennþá viss um það að ef ég kæmist bara í kjörþyngd þá yrði allt gott aftur og ég gæti borðað allt sem ég vildi í hófi.

Mín fallbraut byrjaði síðan þegar ég þurfti að skipuleggja barnaafmæli fyrir dóttur mína. Ég var alveg viss um að það yrði ekkert mál en eftir sem nær dró afmælinu hennar þá varð ég meira og meira stressuð yfir bakstrinum. Það endaði með að ég bað um hjálp við hluta af bakstrinum og keypti smákökur en þurfti sjálf að búa til brauðrétt og baka súkkulaðiköku. Afmælið gekk vel en dagarnir á eftir voru rosalega erfiðir. Ég var ánægð með árangurinn en ekki viss um að ég þyrfti að vera í fráhaldi. Afgangarnir heima eftir afmælið pirruðu mig og ég var alveg viss um að ég gæti fengið mér súkkulaðiköku og haldið svo bara áfram að vigta og mæla matinn minn eftir það. Það eina sem hindraði mig í fallinu var að mamma mín var í heimsókn og ég vildi ekki virðast veikgeðja fyrir framan hana. Skapið batnaði samt ekki og ég fann að það var ekki aftur snúið, þetta myndi óumflýjanlega enda í falli. Ég var meira segja búin að hugsa um hvernig mér myndi finnast það að falla og ég vissi um gott og duglegt fólk sem hafði fallið og staðið upp aftur svo ég hélt að það hlyti að vera ekkert mál að fá sér aðeins og byrja svo bara aftur í fráhaldi. Það eina sem hélt aftur af mér þegar hingað var komið voru uppsöfnuðu dagarnir mínir en ég var ný byrjuð í GSA og hugsaði að það væru hvort eð er bara þeir sem myndu telja svo þetta væri bara allt í lagi. Ég gerði s.s. allt sem í mínu valdi stóð til að réttlæta fall fyrir sjálfri mér.

Að kvöldi til á degi 65 fór maðurinn minn óvænt út úr húsi og ég greip það tækifærið til að falla og fá að ,,njóta“ kolvetna í friði. Ég greip það fyrsta sem ég fann sem var opinn Pringles baukur sem maðurinn minn átti inní skáp. Það furðaði mig hvað fyrsti bitinn var auðveldur. Ég hikaði ekki einu sinni, enda búin að skipuleggja þetta til þaula í hausnum á mér. Ég hringdi og pantaði pizzu en í staðin fyrir að panta bara pizzu eins og við gerðum oft fyrir fráhaldið þá pantaði ég líka hvítlauksbrauð, franskar og vorrúllur. Á meðan að ég beið eftir heimsendingunni þá sauð ég mér makkarónur og settir smjör og tómatsósu útá. Ég borðaði snakk, súkkulaðikex, M&M, piparkökur og kókóstoppa og fékk mér kakó og sykurkók. Ég fékk mér líka tvo cidera, ekki vegna þess að mig langaði í þá heldur einungis af því að áfengi var ekki leyft í fráhaldinu. Þegar pizzan kom var ég nánast södd af hinu gromsinu en borðaði samt stóran hluta af pizzunni og meðlætinu og ældi síðan einu sinni eða tvisvar en hélt samt áfram að borða eftir að ég var búin að jafna mig. Ég var ákveðin að ég myndi byrja í fráhaldi aftur daginn eftir, aðallega af hræðslu við að fitna aftur, þannig að ég ætlaði sko að borða fyrir allan peninginn fyrst ég var að þessu á annað borð. Ég tilkynnti síðan fall áður en ég fór að sofa til stuðningsaðilans míns í MFM og GSA. Daginn eftir byrjaði ég aftur á degi 1.

Dagarnir eftir fall voru furðu auðveldir sem sannfærði mig ennþá meira að ég þyrfti sko ekkert að vera í svona stífu fráhaldi. Ég gæti alveg notað þetta bara til að koma mér í kjörþyngd og síðan lært að borða í hófi eins og eðlileg manneskja. Uppúr því fór ég að rugla aðeins með matinn minn, ég breytti ekkert skömmtunum en hætti að tilkynna breytingar og gaf skít í það þó að tímasetningarnar færu eitthvað í rugl. Það truflaði mig líka að ég mátti ekki drekka áfengi. Áfengisneyslan mín fyrir fráhaldið var fyllerí ca einu sinni á ári og stöku cider, bjór eða vínglas þar á milli. Ég var því í raun ekki að missa af miklu en var samt búin að bíta það í mig að það væri vandamál að mega ekki drekka. Ég ákvað því rúmlega viku eftir fallið mitt, þegar mér var boðið í partý á föstudagskvöldi, að ég ætlaði að fá mér bjór og sjá hvort að ég gæti ekki alveg drukkið án þess að borða. Ég ruglaði eitthvað með matarskammtinn minn um kvöldið og minnkaði hann til að eiga inni kaloríur fyrir bjórnum. Ég endaði á að drekka fullt af bjóri og víni og varð haugadrukkin en fékk mér samt ,,bara“ eina karamellu sem ég fann oní skúffu í skrifborðinu hans mannsins míns og var síðan ótrúlega stolt af mér yfir þessu. Daginn eftir var ég rosalega þunn og missti af morgunmatnum mínum þar sem ég svaf langt framyfir hádegi. Ég var í nokkra klukkutíma að reyna koma hádegismatnum oní mig en fannst það samt ekki vera neitt mál. Um kvöldið þá ákvað ég að fá mér piparkökur á meðan að ég var að elda kvöldmatinn. Ég fékk mér fjórar piparkökur og var rosalega ánægð með sjálfa mig að geta hætt eftir fjórara og borðað bara kvöldmatinn minn.

Á sunnudagskvöldinu, tveimur dögum eftir partýið, þá fékk ég mér aftur piparkökur á meðan að ég eldaði matinn minn en þá dugðu ekki fjórar. Fjórar breyttust í átta sem breyttust í sextán og allt í einu langaði mig ekkert í fiskinn og grænmetið sem ég var búin að elda mér. Ég réði bara engan vegin við mig og varð bara að fá sykur og kolvetni. Það eina sem var til heima var eitthvað súkkulaðiálegg sem ég borðaði með skeið og fékk mér síðan hrísmjólk sem ég borðaði á meðan að ég hugsaði út minn næsta leik. Ég var svekkt yfir því að hafa ekkert fengið neitt nammi í síðasta falli svo ég ákvað að fara í búð að kaupa nammi en það var sunnudagskvöld og allt lokað þar sem ég á heima. Eina leiðin var að fara í 20 mín lestarferð niður í Miðbæ til að komast í búð sem væri opin á sunnudagskvöldi. Maðurinn minn og dóttir mín voru farin að sofa svo það var ekkert sem hindraði mig. Fyrst hljóp ég út og rétt missti ég af lestinni og fór þá heim aftur því það voru 10 mín í næstu lest. Þegar ég var að hlaupa út til að ná næstu lest þá ákvað ég að taka með mér tösku til að geyma allt nammið í sem ég ætlaði að kaupa niðri í bæ. Ég var því aðeins of sein út og missti af lestinni aftur og þá voru 20 mín í næstu lest. Ég fór því heim aftur til að leita á netinu hvort að það væri engin búð opin í hverfinu sem ég gæti hjólað í. Þetta var seint í nóvember og allt á kafi í snjó en ég var samt meira en tilbúin að leggja það á mig að hjóla einhverja vegalengd til að kaupa nammi. Ég borðaði meiri piparkökur á meðan að ég leitaði á netinu en tíminn leið hratt og allt í einu var komið að næstu lest svo ég dreif mig út aftur og rétt náði þriðju lestinni niður í bæ. Þar hoppaði ég út á fysta stað sem ég vissi að væri opin búð og birgði mig algjörlega upp. Ég keypti allt sem mig hugsanlega langaði í og meira til Ég endaði með einhverja 10 mismunandi nammipoka, 2 snakkpoka, rúllutertu, frauðbollur, konfekt, lakkrísstangir og á kassanum bætti ég meira segja við karamellusúkkulaði eftir að afgreiðsludaman var búin að skanna allt og segja mér verðið. Afgreiðsludaman var soldið vel í holdum en horfði samt á mig eins og ég væri algjört átvagl sem og ég líka var. Ég varð að kaupa burðarpoka undir öll herlegheitin því það var ekki séns að koma þessu í töskuna sem ég hafði tekið með mér. Ég labbaði síðan með þennan poka út á lestarstöð og beið þar eftir næstu lest niður í bæ svo að ég gæti farið á McDonald´s. Á meðan að ég beið eftir lestinni þá opnaði ég hvern nammipokann á fætur öðrum og tróð í mig eins og ég gat og beið alltaf eftir sykurkikkinu sem kom aldrei. Í staðin varð ég bara södd nánast strax, mér varð óglatt og ég byrjaði að titra í öllum líkamanum eins og það hefði verið eitrað fyrir mér. Þrátt fyrir þessi viðbrögð þá fór ég samt á McDonald´s og keypti mér hamborgara, franskar, chilli ostatoppa, sykurkók og McFlurry. Þessu tróð ég svo í mig ein á borði með meirihlutann af namminu og snakkinu í poka við hliðiná mér. Þegar kom að ísnum þá var ég komin með svo rosalega í magann að ég kom ekki oní mig nema einum eða tveimur skeiðum. Þarna sat ég og hugsaði hvað ég ætti að gera næst en var þá löngu búin að gera mér grein fyrir að mitt vandamál væri stærri heldur en bara nokkur aukakíló. Ég var búin að gera mér grein fyrir að ég myndi ekki hafa stjórn á átköstunum mínum hvort sem ég væri í kjörþyngd eða ekki og ég vissi þarna að eina leiðin fyrir mig til að ná bata væri að vera í fráhaldi frá sykri og kolvetnum. Þrátt fyrir þessa vitneskju þá var botninum samt ekki náð því ég gat ekki farið heim fyrir magapínu. Ég fór því inn á klósett á McDonald´s í miðbænum til að skila öllum herlegheitunum svo að ég gæti komið mér í lestina heim. Ég fór svo niður á lestarstöð og ákvað að skilja nammipokann eftir niðri í bæ til að ég myndi ekki freistast til að halda átinu áfram eftir að ég væri komin heim. Ég skildi hann því eftir við hliðiná lyftu á lestarstöðinni og ég vona að einhver róni hafi fundið hann og getað haldið smá veislu. Þegar það voru 3 mínútur í lestina mína fattaði ég að ég væri orðin húfu og trefilslaus. Ég var viss um að ég hefði gleymt þeim inni á McDonald´s og hljóp því upp af lestarstöðinni aftur. Ég leitaði eins og óð inni á McDonald´s en fann ekkert og rétt náði lestinni þegar ég kom niður á lestarstöðina aftur. Þá fékk ég þá flugu í hausinn á mér að ég hefði gleymt þeim í lestinni fyrr um kvöldið og brunaði í gegnum alla lestina ef ske kynni að ég hefði lent í sömu lest aftur. Þegar ég var komin í gegnum nánast alla lestina kallaði einhver nafnið mitt en það var bekkjarsystir mín sem vildi endilega spjalla við mig. Ég var lafmóð og ný búin að troða í mig fullt af skyndibita, nammi og snakki og búin að skila því aftur á klósetti á McDonald´s í miðbænum. Þar hafði ekki verið neinn spegill svo ég vissi ekkert hvernig ég liti út, hvort að ég væri með maskara langt niður á kinn eða lyktaði af ælu. Ég náði samt að feika mig þokkalega í gegnum þetta samtal þó að ég muni ekkert hvað við töluðum um, en ég þakkaði allavega guði fyrir að ég hafði skilið innkaupapokann eftir á lestarstöðinni. Þegar ég kom heim fann ég síðan húfuna og trefilinn við útidyrahurðina. Ég hafði þá verið of upptekin við að ná lestinni niður í bæ til að kaupa mér nammi þannig að ég vissi ekki einu sinni hvort að ég hefði verið almennilega klædd eða ekki.

Ég tilkynnti strax fall aftur en á allt öðrum forsendum en eftir fyrra fallið. Eins og ég skrifaði hér að ofan þá byrjaði ég upphaflega í fráhaldi til að grenna mig en komst að því í ferlinu að ég er matarfíkill og hömlulaus ofæta með alvarlegar átraskanir. Eftir að hafa áttað mig á því einu sinni og viðurkennt það fyrir sjálfri mér og minum nánustu þá get ég ekki farið aftur í sama farið. Það er eins og hulu hafi verið svipt af augum mínum og núna er ekki aftur snúið. Ég tók fráhaldinu ekki alvarlega frá byrjun og hélt að það væri ekkert mál að falla og byrja svo bara aftur. Sannleikurinn er sá að það var mér mun erfiðara að standa upp eftir fall heldur en að byrja í fráhaldinu á frysta degi. Fíkillinn er lævís og reynir allt sem hann getur til að plata mig og ná stjórn á aðstæðunum og það eina sem þaggar niður í honum er að fjarlægja fíkniefnin hans sem í mínu tilviki er allar gerðir sykurs og kolvetnis. Ég var líka of lin gagnvart ytri aðstæðum frá byrjun. Af því að ég tók þessu ekki alvarlega þá gerði maðurinn minn það ekki heldur og það var oft til alls konar matur hérna heima sem ég er mjög vanmáttug gagnvart. Ég lét eins og það hefði engin áhrif á mig en í raun og veru þá átti það stóran hlut í því að ég byrjaði að finna fyrir löngun í kolvetni og sykur aftur. Mér finnst ekkert gaman að vera svona en það breytir hins vegar ekki staðreyndunum og það verð ég að muna á hverjum degi. Fyrir mig er ekki nóg að vigta og mæla máltíðirnar mínar því ef ég leyfi mér að gleyma því að ég er matarfíkill þá finnur fíkillinn sér leið til að plata mig á ný. Ég skrifa því þessa fallsögu til að hjálpa mér að muna þegar þetta verður orðið fjarlægt minni og vona að fallsaga mín nýtist einhverjum öðrum líka að vinna að sínum bata.