Lilja Guðrún Guðmundsdóttir hefur með aðstoð MFM Miðstöðvarinnar náð að koma lífsstílnum sínum í gott far og þakkar góðan árangur þeim stuðningi sem hún fékk hjá miðstöðinni. Hún var komin í mikla yfirþyngd og farin að fela fyrir manninum sínum sælgæti sem hún laumaðist svo til þess að borða þegar hann sá ekki til. Í dag starfar hún hjá MFM Miðstöðinni og segir meðferðina hafa bjargað lífi sínu þegar hún gekk á fund til þeirra. Heilsan ræddi við Lilju á dögunum um lífið, tilveruna og baráttu hennar við matarfíkn.

„Ég er með BA í uppeldis- og menntunarfræði og svo er ég búin með Ráðgjafaskóla Íslands (ráðgjöf í fíknum). Ég var svo heppin að fá vinnu hjá MFM Miðstöðinni fyrir ári síðan og hef verið að vinna þar á skrifstofunni og svo er ég líka að vinna í ráðgjöf með matarfíkn og átraskanir.“
Lilja stundar handavinnu, heklar, prjónar og málar og finnst það afar gefandi að skapa. Hún hefur einnig áhuga á útivist, líkamsrækt, hugleiðslu og elskar að lesa góðar bækur og vera með góðu fólki.
Hvenær heyrðir þú fyrst af MFM Miðstöðinni?
Ég sá viðtal við Esther Helgu hjá MFM í Vikunni fyrir nokkrum árum og var líka búin að sjá auglýsingar frá henni. Eins hafði ég velt fyrir mér 12 spora samtökum vegna matarfíknar. En svo benti mamma mér á þetta úrræði og ég pantaði tíma.
Hvenær og af hverju fórstu í meðferð hjá MFM Miðstöðinni?
Ég byrjaði í meðferð 10. maí 2008. Ég var búin að prófa svo mörg átök og megranir til að grennast og hafði orðið litla von um að mér myndi takast að verða einhvern tímann grönn. Ég ákvað að prófa einn mánuð hjá MFM Miðstöðinni og ætlaði að sjá svo til. Ég var búin að missa alla stjórn og var orðin 40 kílóum of þung. Ég var þar í hálft ár með góðum árangri.
Fannst þér það stórt skref að leita til þeirra?
Já, það var það. En þetta stóra skref varð mitt gæfuspor og bjargaði lífi mínu. Ég var hrædd um að þetta myndi ekki virka á mig en ég var orðin vonlaus yfir ástandi mínu.
Hvenær áttaðir þú þig á því að þú ættir við vandamál að stríða?
Ég áttaði mig á ástandinu þegar ég varð ólétt í lok árs 2005. Þá hafði ég verið í mjög stífu átaki og búin að taka af mér 20 kíló, verð svo ólétt og verð algjörlega hömlulaus í sætindunum. Þá áttaði ég mig á að ég hefði enga stjórn þegar nammi og skyndibitamatur voru annars vegar.
Finnst þér eitthvað ákveðið hafa orðið til þess að þú áttaðir þig á því ?
Nei, það er í raun ekkert eitt sem varð til þess. Ég var bara orðin svo þreytt á ástandinu mínu og andlega hliðin var ekki góð. Jólin 2007 var ég komin í þriggja stafa tölu og var jafn þung og þegar ég var komin 9 mánuði á leið og mér leið mjög illa. Þau jól borðaði ég mjög hömlulaust og hafði engan stjórn á mér. Ég man að ég hafði keypt konfekt fyrir jólin og ég held að það hafi verið alveg búið þegar jólin komu. Síðustu vikurnar áður enég fór í meðferð var ég farin að fela nammið mitt. Ég var orðin eins og sjúkur alkóhólisti. Ég sagði við manninn minn sem var að læra heima inni í herbergi að ég ætlaði í göngutúr. Labbaði út í sjoppu og keypti mér bland í poka, örugglega fyrir 500-1000 krónur, og fór svo heim. Ég passaði mig að láta ekki heyrast í pokanum og sniglaðist með hann inn í eldhús og setti nammið í skál, faldi pokann vel og vandlega í ruslinu og fór inn í stofu með skálina. Þar faldi ég hana undir púða og byrjaði að borða. Ég var alltaf að passa að maðurinn minn kæmi ekki fram og kláraði nammið á núll einni. Þetta gerði ég í marga daga áður en ég fór í meðferðina. Þarna sá ég hvað ástandið mitt var orðin veikt. Ég var farin að fela fíkn mína og í raun orðin mjög óheiðarleg við fólkið mitt.
Veistu hvernig þetta byrjaði hjá þér?
Ég held að ég hafi verið matar/sykurfíkill frá því að ég var barn. Ég var lítið fyrir mat sem barn/unglingur og frekar mikill gikkur. En allt sem var sætt var mitt. Ég man eftir að hafa stolið peningum þegar ég var 8-10 ára til þess að geta farið út í sjoppu og keypt nammi. Ég hef alltaf notað sykurinn til að deyfa mig og það byrjaði snemma. Ég var mikið í íþróttum og þegar gekk vel þá var fagnað með nammi eða skyndibitamat
og þegar gekk illa þá var líka notast við sykurinn og nammið. Ég notaði sykurinn og matinn til að deyfa mínar tilfinningar.
Hvernig hefur MFM Miðstöðin hjálpað þér?
MFM hefur bjargað lífi mínu. Ég hef eignast nýtt líf. Ég hef misst u.þ.b. 35-40 kíló síðan ég byrjaði en ég hef örugglega misst 200 kíló af sálinni. Ég get í raun sagt að ég sé ekki sama manneskjan og sú sem gekk hér inn í maí 2008. Þegar ég kom inn í miðstöðina var ég andlega búin á því. Megrunarhugsunarhátturinn var ennþá ríkjandi hjá mér. Hjá MFM var mælt með að taka út allan sykur, hveiti, ýmsar kornvörur og rjóma og ég var í daglegu sambandi við ráðgjafa. Ég fór svo að vinna með tilfinningahlutann. Ég þurfti að spyrja sjálfa mig að því frá hverju ég var að deyfa mig með ofátinu. Þetta var alveg nýtt fyrir mér því ég hafði ekki hugsað hlutina á þennan hátt. Í MFM komst ég að því að ég get ekki stjórnað matarvenjum mínum. Það að hitta svo fólk sem var að bögglast í því sama og ég var yndislegt en við vorum saman 8 manns og tengdumst sterkum böndum. Það að geta verið með fólki sem skilur mann er bara frábært. Það var hópfundur einu sinni í viku og þar var farið í verkefni til vinna með matarfíknina og til að efla mann og styrkja andlega. Ég hef komist í samband við sjálfa mig og tek þátt í lífinu. Ég er sátt við sjálfa mig og get staðið með mér og sett fólki mörk.
Þarftu ennþá að hugsa um hvað þú setur ofan í þig?
Ég hef áttað mig á að ég er með fíkn sem heitir matarfíkn og það er sjúkdómur sem verður alltaf til staðar í mér. Ég veit að ég get ekki fengið mér sykur eða aðra tengdar vörur. Ef ég geri það þá fer ég í hömluleysið og á þann stað sem ég var á þegar ég byrjaði. Það er bara í raun dauði og djöfull fyrir mér og ég er ekki búin að gleyma því hvernig ég var. Ég vel að vigta og mæla matinn minn og sleppa ákveðnum fæðutegundum því þær valda mér fíkn En ég tek bara einn dag í einu og þarf ekki ákveða nema bara það hvað ég ætla að borða á morgun. Þvílíkt frelsi sem það er!
Hvað hefur þú lært af þessari baráttu?
Ég hef lært að taka ábyrgð á sjálfri mér og að finna leið sem virkar. Ég var búin að prófa svo margt og var alltaf að gera það sama aftur og aftur því að nú átti það að virka. En það var aldrei að virka nema í stuttan tíma. Og niðurrifið á sjálfa mig eftir hvert átakið sem mistókst var alltaf að verða meira og meira. Ég skildi ekki af hverju mér tókst ekki að grennast eins „allir“ hinir og vá hvað mér fannst ég lélegur pappír.
En ég var alltaf að gera þetta ein. Það sem ég hef lært er að ég get þetta ekki ein, ég þarf stuðning og ég þarf að nota þau verkfæri sem eru til staðar, t.d. eins og 12 sporin og fundi. Ég þarf ekki að hugsa um megranir og átök og ég er búin að vera laus við það í tæp 3 ár. Ég er frjáls frá þráhyggju um mat og hvað ég eigi að borða, hvað sé hollt og hvað sé óhollt. Hvort ég eigi að fara í ræktina eða ekki, að á morgun hætti ég í sykrinum, eftir jólafrí, páskafrí og sumarfrí …   Ég hef fengið frið í sálina og er frjáls.
Er eitthvað sem þú vilt segja við aðrar konur eða aðra menn sem eru í sömu sporum og þú varst?

Það er von!

Ef ég get þetta þá getur þú þetta líka. Ég hvet þig til að stíga skrefið og prófa. Við erum að skerða lífsgæði okkar svo mikið. Við verðum að byrja á okkur sjálfum til þess að geta verið til staðar fyrir börnin okkar og fjölskyldu.

Hvað er heilsa fyrir þér?
 Heilsa fyrir mér er andleg, huglæg og líkamleg. Heilsa er að líða vel í eigin skinni hvort sem maður er 5 eða 10 kílóum of þungur. Það þarf að rækta alla þessa hluti, líka andlegu hliðina og þá huglægu en ekki bara líkamlega hlutann. Við erum með tilfinningar og þurfum að sinna þeim ásamt því að skoða hugsanir okkar, því að hugsanir okkar stjórna okkur á svo margan hátt.
Lumar þú á góðum ráðum fyrir lesendur Heilsunnar?
Það sem ég reyni að tileinka mér með mína heilsu er að borða góðan mat, fara í hugleiðslu og tengjast sjálfri mér. Vera með hugann í deginum í dag. Góður svefn gerir alltaf gæfu mun og ekki gleyma að njóta þess að hreyfa sig. Taka einn dag í einu. En eins og með margt þá virkar þessi hlutir ef maður stundar þá, annars ekki.
 „Ég hef fengið frið í sálina og er frjáls.“