Sykurfíkn: Er viljastyrkur nóg?

Eftir Esther Helgu Guðmundsdóttur

Það var frábær þáttur á RÚV 14. október sl. um sykur sem nautnafíkn.

Í þættinum var m.a. fjallað um hvaða áhrif sykur hefur á líkama okkar og heilastarfsemi og hvernig hann getur orðið ávanabindandi fyrir okkur. Því er einnig haldið fram að við getum breytt um lífsstíl og hætt neyslu sykurs – bara ef við ákveðum það og höfum nógu mikinn viljastyrk.

Þessu er enn og aftur haldið fram þrátt fyrir að mjög stór hópur fólks hafi látið reyna á allar mögulegar og ómögulegar leiðir til að hætta þessari neyslu og sé stöðugt að berjast við að hætta henni. Sumir hafa jafnvel náð því um tíma, en svo kemur aftur og aftur sú stund þegar viðkomandi „ákveður“ að fá sér aftur, þrátt fyrir þær afleiðingar sem neyslan hefur bæði líkamlega og andlega!

Rannsóknir sýna að sykur getur verið meira ávanabindandi en kókaín.[1] Samt eigum við bara að nota hin fleygu orð Nancy Reagan: „Just say no“ gagnvart sykurneyslu.

Sífellt er verið að segja við okkur: „Þú hefur valið! Og ef þú hefur ekki getað haldið þér frá sykrinum þá hefur þú bara ekki viljað það nógu mikið eða lagt nógu hart að þér.“ En af hverju eru þá ekki allir grannir sem hafa mikinn viljastyrk og hefur t.d. vegnað vel í námi og starfi? Er það kannski af því að þá einstaklinga langar að vera feitir? Og ef þetta er svona einfalt af hverju erum við þá ein feitasta þjóð í heimi?[2]

Hér kemur í ljós þessi einkennilega afneitun á eðli fíknar. Það er búið að viðurkenna að ef áfengis- og vímuefnafíklar þurfi meira en viljastyrkinn, þeir þurfi að fara í meðferð, þeir þurfi 12 spora vinnu og annað sem virkar til að halda þeirri fíkn niðri.

Hér á landi eru tvenn 12 spora samtök fyrir þá sem eiga við matar- og/eða sykurfíkn að stríða, GSA (GreySheeters Anonymous) og OA (Overeaters Anonymous). Auk þess stendur matarfíklum til boða meðferð hjá MFM-miðstöðinni en hún hefur verið starfrækt síðan 2006. Þar hefur batinn og árangur verið mjög góður og erlendir sérfræðingar í fíknifræðum hafa gert sér ferðir til Íslands til að kynna sér starfsemi MFM-miðstöðvarinnar og hennar er getið í fyrstu kennslubók fyrir fagfólk um matarfíkn sem var gefin út á síðasta ári (Food and Addiction, a comprehensive handbook, höfundar; Kelly D. Brownell og Mark S. Gold).

Ég hef nú unnið með yfir 2000 einstaklingum, bæði hér heima og erlendis, sem hafa fengið skimun á að þeir geti verið haldnir matar- eða sykurfíkn.

Stór hópur þessa fólks hefur, þegar hann fékk loks að vita hvað væri að og hvernig hægt er að halda þessum fíknisjúkdómi niðri, náð árangri í þessari baráttu í fyrsta skipti. Þessir einstaklingar hafa öðlast frelsi frá löngun í efnið og fengið stuðning til að viðhalda þessu frelsi. Þeir eru ekki lengur daginn út og inn í baráttu við sjálfa sig um hvort þeir eigi að fá sér ostakökuna eða ekki.

Það sem virkar fyrir þennan hóp er að nota sömu og/eða svipaðar aðferðir og þegar unnið er með aðrar fíknir. Í því felst að fræðast um sjúkdóminn, hvernig hann hefur áhrif á viðkomandi, átta sig á vangetunni til að hætta varanlega án stuðnings og síðan fá leiðbeiningar til að taka fíkniefnið út ásamt því að læra hvað viðheldur getunni til að segja „nei, takk“.

Í fyrsta lagi þarf að taka út fíkniefnið og aðstoða viðkomandi við að taka þau matvæli út úr fæðunni sem hafa þessi ávanabindandi áhrif á líkamann og heilann.

Í öðru lagi þarf að skilja hinn hlutann, þ.e. hugann og tilfinningarnar, og vinna með þá þætti, því að líkamlega löngunin er aðeins hluti af vanlíðaninni sem okkur „finnst“ að aðeins sykur eða önnur kolvetni geti lagað. Það er sá þáttur sjúkdómsins sem kemur yfir okkur og er svo lúmskur, þessi einkennilega fullvissa um að núnaverði þetta öðruvísi, þrátt fyrir að við höfum verið hætt að borða sykur og unnin kolvetni og löngunin sem fylgir neyslunni sé farin. Við teljum okkur trú um að núgetum við alveg fengið okkur aðeins einn bita, þegar reynslan hefur kennt okkur að á eftir fyrsta bitanum fylgir alltaf annar biti og svo annar og annar þar til átkastið gengur yfir.

Eru þá allir sem eru feitir sykur- eða matarfíklar? Nei, við vitum að svo er ekki, margir þurfa einfaldlega að læra að borða hollari fæðu, sleppa ýmsum matartegundum, láta af óhollum matarvenjum,hreyfa sig eðlilega og málið er dautt.

En það er allt of stór hópur sem er að berjast í vandanum ár eftir ár og fær ekki hjálp við hæfi.

Á meðan stjórnvöld og heilbrigðisstarfsfólk lokar augunum fyrir þessu og afneitar þessum heilbrigðisvanda þá stækkar hann stöðugt og kostnaður af honum vex í sömu hlutföllum. Talað er um að ef ekki fæst einhver lausn á offituvandanum muni kostnaðurinn sem af honum hlýst sliga heilu þjóðfélögin.

Á þeim stofnunum hér á landi sem unnið er með offitu og átraskanir er því alfarið hafnað að um matarfíkn geti verið að ræða. Unnið er eftir sömu vinnureglum ár eftir ár þrátt fyrir að árangur sé lítill hjá þeim hópum sem vinna með offitusjúklinga (sbr. skýrslur offituteyma settar fram á ráðstefnu Félags fagfólks um offituvandann 2012. Þar er talað um að meðaltali 5-10 kg þyngdartap á ári hjá hverjum skjólstæðingi).

Magaminnkunaraðgerðir bera árangur í einhverjum tilfellum. Vandinn við þær er hins vegar sá að þær eru gríðarlegt inngrip í líkama viðkomandi og hann verður aldrei samur. Aukaverkanir af aðgerðunum eru ekki afturkræfar og stór hópur nær aldrei kjörþyngd og/eða þyngist aftur eftir einhvern tíma. Þá eru þeir ótaldir sem í kjölfar aðgerðanna þróa með sér aðrar fíknir, t.d. í áfengi og önnur vímuefni eða spila- og eyðslufíkn svo að eitthvað sé nefnt. Þetta er fyrir utan kostnaðinn sem heilbrigðiskerfið þarf að bera af hverri aðgerð.

Síðastliðið vor voru samtökin Matarheill stofnuð. Samtökin eru réttinda- og baráttusamtök fyrir þá sem eiga við matarfíkn að stríða. Nú þegar eru yfir 100 meðlimir skráðir félagsmenn. Við í samtökunum Matarheill horfum til þess að farið verði að viðurkenna matarfíkn eins og aðra fíknisjúkdóma og tekið sé á málum á sama hátt og gert er með alkóhólisma. Mikilvægt er að stjórnvöld átti sig á vandanum, breyti stefnu sinni og viðurkenni vandann sem blasir við. Þær aðferðir sem hafa verið við lýði árum saman skila ekki tilætluðum árangri og gera þarf bragarbót á því.

Það sem þarf að koma til er algjör hugarfarsbreyting, samvinna fagstétta og vilji stjórnvalda til að styðja við bakið á meðferðarúrræðum sem taka á þessum vanda sem fíknivanda. Ef það gerist ekki höldum við áfram að vera ein feitasta þjóð í heimi. Er það það sem við viljum?

Esther Helga Guðmundsdóttir MSc., framkvæmdastjóri og matarfíknarráðgjafi hjá MFM-miðstöðinni

 

Grein sem birtist á Pressunni, í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu

 

Í tilefni þess að MFM miðstöðin stendur fyrir málþingi um matar- og sykurfíkn  þann 7. apríl næstkomandi, langar mig að vekja athygli landsmanna á þessu málefni. MFM miðstöðin er meðferðar og fræðslumiðstöð sem hefur það markmið að vinna með einstaklingum sem eru að berjast við matar- og sykurfíkn og átraskanir.  Miðstöðin vinnur bæði með líkamlegar og andlegar hliðar sjúkdómsins, sem og tilfinningalega þætti.

Matar- og/eða sykurfíkn er fíknisjúkdómur.  Sjúkdómurinn hefur bæði líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar hliðar. Sá sem á við matarfíkn að stríða ánetjast matvælum með efnafræðilegum hætti og líkami einstaklinga með matarfíkn vinnur lífefnafræðilega öðruvísi úr mat heldur en líkami „venjulegra“ einstaklinga. Margir matarfíklar hneigjast til þess að ánetjast ákveðnum tegundum matvæla, s.s. sykri, hveiti, glúteni, fitu, salti, koffíni og/eða mat í miklu magni, rétt eins og alkóhólistinn sem ánetjast alkóhóli eða vímuefnum. Eftir því sem fíknin þróast og ágerist, verða matarfíklar vanmáttugir yfir hinni líkamlegu löngun sinni og er þá stutt í þráhyggjuna og afneitun á því sem er að gerast. Þráhyggjan birtist oft með þeim hætti að matarfíkilinn er gagntekin af mat. Hugsanir hans fara í miklum mæli að snúast um að ná sér í, undirbúa og borða ákveðin matvæli. Þá er sífellt verið að velta fyrir sér hvað sé hollt og hvað sé óhollt og hugsanir um komandi líkamsræktarátök verða yfirgnæfandi: Á morgun skal ég byrja, eftir helgi, á mánudaginn, eftir páskafrí,jólafrí, sumarfrí o.s.frv. Þráhyggju gagnvart mat fylgir nær undantekningarlaust þráhyggja gagnvart útiliti og þyngdarbreytingum.

Sem dæmi um nokkur einkenni og merki um matarfíkn má nefna óeðlilegar langanir í tiltekin matvæli, röskun á sjálfsmynd, lotu- og laumuát, ásamt almennri skömm og ótta í tengslum við mat. Sumir matarfíklar stela mat eða peningum til að kaupa mat, á meðan aðrir upplifa vanlíðan í aðstæðum þar sem þeir hafa ekki aðgang að mat. Matarfíklar breiða oft yfir tilfinningar sínar þegar verið er að tala um mat, át eða þyngd og leitast við að leiða umræðuna að einhverju öðru. Þar eru tengslin á milli sjúkdómsins og launungarinnar augljós. Fíknin sjálf þrífst hins vegar á óheiðarleika og einangrun.

Einstaklingur sem er að kljást við matar- eða sykurfíkn verður vonlaus, pirraður og niðurdreginn þegar allar tilraunir til að stjórna mataræðinu bregðast.  Það að hreyfa sig meira og borða minna, jafn einfalt og það virðist, er ekki að ganga sem skyldi. Sú leið hefur verið fullreynd og er ekki að virka. Eftir situr niðurbrotinn einstaklingur, uppgefinn á því að reyna sömu lausnirnar aftur og aftur, en án árangurs. Slíkur einstaklingur þarf hjálp við að takast á við tilfinningar sínar og hugsanir.

Heilbrigðiskerfið býður ekki uppá þær lausnir sem matarfíklar þarfnast. Vissulega er til fullt af fólki sem náð hefur árangri með því að hreyfa sig meira og borða minna en eftir situr stór hópur fólks með sveitt enni en engan árangur. Spurningin sem eftir situr er þá sú, hvernig eigi að hjálpa þeim einstaklingum? Svarið við þeirri spurningu birtist mér þegar ég skráði mig í meðferð vegna matarfíknar hjá MFM miðstöðinni.

Ég hef verið í bata frá matar- og sykurfíkn í að verða 3 ár og er nú 35 kg léttari heldur en þegar ég fyrst skráði mig í meðferðina. Ég var búin að reyna alla megrunarkúra, átök og skyndilausnir sem fyrirfundust, en án árangurs. Um það geta bæði vinir og ættingjar vitnað. Alltaf sat ég hins vegar eftir með bullandi samviskubit og hugsanir um hversu ömurleg ég væri að geta ekki staðið mig í stykkinu. Mergur málsins var hins vegar sá, að þær lausnir sem ég reyndi, voru einhverra hluta vegna ekki að virka fyrir mig. Það var ekki fyrr að ég hóf meðferð mína hjá MFM miðstöðinni, að ég viðurkenndi vanmátt minn gagnvart matarfíkninni og hóf hina löngu vegferð í átt til bata.

Í dag líður mér vel. Ég hef náð sátt við sjálfa mig og held mig frá þeim matvælum sem vekja upp í mér fíknina. Ég tek einn dag í einu og geri mér grein fyrir að vegurinn er þröngur, en hann mun ég feta engu að síður. Fyrir þá sem þetta lesa og sjá sjálfa sig í mér, vil ég bara segja eitt. Ekki gefast upp. Fyrst ég gat náð árangri, þá getur þú það.

Lilja Guðrún Guðmundsdóttir
Fíkniráðgjafi

 

 

Greins sem birtist í Heilsa í janúar 2011

Esther Helga Guðmundsdóttir stofnaði MFM miðstöðina fyrir 5 árum og hefur starfað þar síðan sem ráðgjafi, meðferðastjóri, fyrirlesari og framkvæmdastýra. Við höfum vel flest heyrt um matarfíkn og átraskanir án þess endilega að átta okkur um hvað málið snýst. Heilsan fékk að spyrja Esther aðeins út í MFM miðstöðina, matarfíkn og átröskun.

 

Hvað er MFM?

MFM miðstöðin er meðferða- og fræðslumiðstöð vegna offitu, matar/sykurfíknar og átraskana.

 

Hver eru markmið MFM?

Markmið MFM miðstöðvarinnar er fyrst og fremst að bjóða upp á einstaklingsmiðaða meðferð og ráðgjöf fyrir þá sem sýna einkenni matarfíknar og annarra átraskana. Einnig sinnum við fræðslu með fyrirlestrum og námskeiðahaldi. Við hjá MFM miðstöðinni leggjum áherslu á að fræðslan og ráðgjöfin byggi á persónulegri reynslu þeirra sem veita hana og fagmennsku þeirra fagaðila sem leitað er til þegar þurfa þykir.

 

Hvað er matarfíkn?

Matarfíkn er líffræðilegur, huglægur og andlegur sjúkdómur.

a. Þegar viðkomandi neytir ákveðinna efna í fæðunni s.s. sykurs eða hveitis, valda þessi efni líkamlegri löngun í meira. Viðkomandi finnur fyrir knýjandi þörf til að fá sér meira og helst klára það sem til er.

b. Huglægi þátturinn lýsir sér þannig að hugurinn fer strax að skoða og finna leiðir til að fá meira. Hugurinn sætir færis að sannfæra viðkomandi um að í þetta skipti verði allt í lagi að fá sér; „við fáum okkur bara einn bita og svo aftur kannski í næstu viku”. En raunveruleikinn er að þegar þessi efni komast inn í blóðrásina þá missir viðkomandi stjórn á áti sínu og vítahringur fíknarinnar eða ílöngunarinnar er vakinn á ný.

c. Viðkomandi neytir þessara matartegunda vegna þess að þau gera eitthvað fyrir hann, honum líður betur og vanlíðan hverfur. Eftir því sem sjúkdómurinn þróast hjá viðkomandi minnkar virkni efnanna og einstaklingurinn þarf meira til að finna til sömu vellíðunar. Á seinni stigum hættir viðkomandi að finna fyrir vellíðunaráhrifum matarins, en hefur samt knýjandi þörf til að svala lönguninni í hann.

 

Hvað er átröskun?

Birtingarmyndir átröskunar geta verið með ýmsu móti. Við könnumst flest við lystarstol (anorexiu), lotugræðgi (binge eating disorder) og búlemíu þar sem viðkomandi leitast við að losa sig við það sem hann hefur neytt með uppköstum, mikilli líkamsrækt, hreinsiföstum og ýmsum megrunarleiðum.

Undirliggjandi vandi flestra sem sýna merki átraskana er andleg vanlíðan. Rannsóknir sýna að allt að 80% þessa hóps hefur orðið fyrir áföllum eða ofbeldi af ýmsum toga. Sá sem á við átröskun að stríða þarf að horfast í augu við líðan sína og læra að bregðast við henni á heilbrigðan hátt.

 

Hvar liggja mörkin? Sumum finnst til dæmis bara mjög gott að borða eða hvað?

Flestir sem leita aðstoðar hjá MFM miðstöðinni sýna merki bæði átraskana og matarfíknar. Sumir eiga við þyngdarvanda að stríða en aðrir sérstaklega þeir sem eru sykurfíklar eru ekki endilega of þungir, þeir neyta sykurs á kostnað matar.

Nánast allir sem til okkar koma hafa árum og áratugum saman reynt að fylgja öllum þeim leiðbeiningum sem heilbrigðisstarfsfólk og annað fagfólk hefur ráðlagt þeim til að grennast eða breyta lífsháttum sínum. Árangurinn hefur látið á sér standa og verið tímabundinn í besta falli.

Ef einstaklingur sem þjáist af matarfikn og átröskun fær ekki réttar upplýsingar um ástand sitt, bíður hans síendurtekið niðurbrot á sál og líkama, því ekkert sem hann reynir að gera til að bregðast við ástandi sínu virðist virka. Hann skilur ekki af hverjum honum tekst ekki að „borða minna og hreyfa sig meira“ og ná árangri eins og aðrir.
Ástæðan er hinsvegar sú að hann hefur ekki fengið leiðbeiningar sem virka fyrir þá sem eiga við matarfikn og átröskun að stríða og þann stuðning sem er honum nauðsynlegur.

 

Er þetta algengara hjá konum eða körlum?

Við fáum töluvert fleiri konur en karla í meðferðina. Samkvæmt tölum um offitu hér á landi eru þó fleiri karlar of þungir en konur, þannig að ég tel að vandamálið snerti bæði kynin, en konur eru duglegri að leita sér hjálpar.

 

Hvernig getur maður komist að því hvort maður sé haldinn t.d. matarfíkn?

Við mælum með skimunarviðtali hjá MFM miðstöðinni. Þar förum við m.a. yfir spurningalista með viðkomandi til að skoða hvort um matarfikn eða átröskun sé að ræða. Einnig er hægt að fara inná www.matarfikn.is og skoða spurningalista sem segir til hvort um mögulega matarfikn er að ræða.

 

Hvernig aðstoðið þið fólk sem á við þessi vandamál að stríða?

Við bjóðum uppá einstaklingsmiðað meðferðarprógram sem stuðlar að líkamlegum, tilfinningalegum/huglægum og andlegum bata fyrir þá sem fá skimun um matarfíkn og/eða átraskanir.

Fyrsta skrefið er einstaklingsviðtal; þar er farið yfir sögu viðkomandi hvað varðar matar- og þyngdarmál og ferli sett af stað til að kanna hvort um matarfíkn og/eða átraskanir geti verið að ræða. Það ferli getur tekið eitt til tvö viðtöl.
Þeir sem eru tilbúnir til að fara í meðferð hefja hana með þriggja daga helgarnámskeiði.
Á námskeiðinu er unnið að breytingum á mataræði og fráhald hafið, lært að elda fyrir nýjan lífstíl, og lagður grunnur að einstaklingsmiðaðri meðferð.

Meðferðin er í göngudeildarformi. Hún felur í sér daglegan stuðning við matardagskrá og verkefni sem tengjast meðferðinni ásamt ca. átta manna stuðningshóp sem hittist einu sinni í viku, tvo tíma í senn. Einnig er boðið uppá einstaklingsviðtöl og kynningar á 12 spora starfi.
Í meðferðinni er leitast við að styðja skjólstæðinga í breyttum lífstíl og bataferli sem felur í sér stuðning við þær mataræðisbreytingar sem viðkomandi er að takast á við, ásamt því að skoða hver getur verið undirliggjandi orsök vandans og styðja viðkomandi í að ná tökum á honum.

 

Finnst þér einhver samnefnari með fólk sem fær átraskanir eða á við matarfíkn að stríða?

Oft virðist um genatengingar að ræða hjá þeim sem eiga við matarfikn að stríða, það er greinilegt að þetta liggur í ættum, en hin ýmsu áföll geta hrundið af stað átröskunum.

 

Hvernig er árangurinn hjá þeim sem hafa komið til ykkar?

Árangurinn hefur verið frábær, ótölulegur fjöldi kílóa hefur fokið og andleg og tilfinningaleg líðan gjörbreyst. Fólk upplifir frelsi frá matar og sykurlönguninni og finnur fyrir meira andlegu og líkamlegu jafnvægi.

 

Er nafnleynd hjá ykkur?

Já við leggjum ríka áherslu á nafnleynd og trúnað í okkar starfi.

 

Eru einhver merki sem maður getur fylgst með hjá fólki ef maður hefur áhyggjur af því?

Þar er fyrst að nefna þyngdaraukningu eða sveiflur í þyngd og hvort viðkomandi felur át sitt. Einnig hvort hann hefur einangrast og sýni einkenni um depurð eða þunglyndi.

 

Hvernig er árangurinn til lengri tíma litið?

Við hjá MFM miðstöðinni leitumst við að ráðleggja skjólstæðingum um leiðir sem virka fyrir þá sem eiga við matarfikn og átröskun að stríða. Við leggjum ríka áherslu á stuðning og fræðslu og að skapa rými fyrir skjólstæðinga til að tileinka sér þann nýja lífstíl sem nauðsynlegur er til að ná og síðan viðhalda og vaxa í þeim bata sem þeir ná.

 

Grein sem birtist í Morgunblaðinu

 

Matarfíkn:

Missti nærri helminginn af sjálfri sér á tveimur árum
Lífið snérist bara um matartengdar hugsanir
Matarfíkillinn Esther Helga Guðmundsdóttir ráðgerir að hjálpa öðrum matarfíklum til sjálfshjálpar eftir að hafa sjálf náð undra-verðum árangri í baráttu sinni við fíknina.
Hún sagði Jóhönnu Ingvarsdóttur frá átökum við matarfíkn.

Esther Helga Guðmundsdóttir var orðin 48 ára gömul og ríflega 123 kíló þegar hún loksins fann lausnina á matarfíkninni, sem hún hafði verið að burðast með allt frá unglings aldri. Nú er Esther Helga orðin þremur árum eldri og 58 kílóum léttari.
Hún hefur verið í rúm 3 ár í bata.

Nálin staðnæmist nú í 65 kílógrömmum þegar hún stígur á vigtina og nú ætlar Esther að fara að miðla öðrum af reynslu sinni þar sem henni finnst vanta ráðgjöf og fræðslu fyrir þá sem telja sig eiga í vanda með mat.

Í þeim tilgangi hefur hún nú opnað MFM-miðstöðina, sem stendur fyrir meðferðar- og fræðslumiðstöð vegna matarfíknar.

Matarfíkn er stigversnandi sjúkdómur

„Hafi maður einlæglega reynt að hætta að nota ákveðin matvæli og það ekki tekist, má búast við því að sá hinn sami eigi við matarfíkn að etja. Þeir fá hinsvegar fæstir varanlega lausn sinna mála nema leita sér hjálpar,” segir Esther Helga, sem sjálf hefur prófað alla mögulega og ómögulega megrunarkúra auk stólpípuhreinsana í gegnum tíðina.
Henni tókst að snúa vörn í sókn með því að leita til sjálfs hjálparsamtaka, sem vinna eftir 12 spora kerfinu.

Þó erfitt sé nú að ímynda sér að Esther hafi nokkru sinni þurft að glíma við offitu, gerir hún sér grein fyrir því að matarfíknin er lífstíðarverkefni, sem hún verður að vinna með frá degi til dags. „Ef ég borða einn hömlulausan bita á ég á hættu að verða fíkninni aftur að bráð.

Ég undirbý næsta dag með tilliti til þess hvað ég ætla að borða og tilkynni það stuðningsaðila, vigta og mæli allan mat, borða þrjár máltíðir á dag og ekkert á milli mála nema vatn, kaffi eða te og stundum sykurlaust gos. Sykur, hveiti, kornmeti og rjómi er eitur fyrir mig og veldur mér fíkn.

Flestan annan mat má ég borða og get viðurkennt það nú að ég hef aldrei borðað og liðið jafnvel af nokkrum mat. Ég má nota sojamjöl og hveitikím og get þar af leiðandi búið til mínar eigin pönnsur, en fæðið mitt er svo sannarlega engin hungurlús.

Það er svo frábært fyrir okkur matarfíklana að fá mikinn mat þegar við höfum eytt lífinu í stanslausri megrun og hungri, en samt alltaf sokkið dýpra og dýpra.”

Samkvæmt tölum Lýðheilsustöðvar er um helmingur þjóðarinnar of þungur.

„Auðvitað á allt þetta fólk ekki við matarfíkn að etja. Flestir geta sett sér mörk og farið eftir þeim. En þeir sem eru komnir í vítahring fíknarinnar geta það ekki án hjálpar.

Matarfíkn er stigversnandi sjúkdómur, sem leiðir smátt og smátt til þess að maður missir fótana, við verðum síðan eins og segir í AA bókinni, eins og maður sem hefur misst báða fæturna, það vaxa aldrei nýir í staðinn. Við þurfum því að læra nýjan lífsstíl. Fyrst og fremst þurfum við að komast í fráhald frá fæðutegundum sem valda okkur fíkn og breyta því hvernig okkur líður. Síðan þarf að skoða tilfinningalega og andlega þáttinn. Hvað er undirliggjandi, hvað olli því að við fórum að nota mat til að láta okkur líða betur?”

 

Fann fljótt mynstrið sitt

Esther segist ekki hafa verið feit sem barn. Hún hafi þvert á móti verið kraftmikill krakki, sem borðað hafi mikið og hlaupið mikið. En á kynþroskaskeiðinu hafi hún heyrt fólk hvískra um að hún væri nú farin að bæta svolítið á sig.

„Offita og aðrar átraskanir hafa stungið sér víða niður í báðum mín um fjölskyldum og fyrirmyndirnar voru ljóslifandi í eldhúsinu þar sem afi og amma sátu og bara borðuðu, en gátu sig ekki hreyft fyrir offitu.
Það var því mikið rætt um megrun á mínu heimili enda stefndu menn allt af á að gera eitthvað róttækt í málunum því það að vera grannur þótti flottast.

Það má því segja að bæði erfðir og útlits þráhyggja í umhverfinu hafi haft áhrif á mig á frá unga aldri.

Ég fastaði í fyrsta sinn 16 ára gömul.

Ég hafði unnið í sveit um sumarið og bætt á mig nokkrum kílóum, en ákvað að svona feita gæti ég ekki látið sjá mig í bænum. Ég svelti mig í viku og var orðin svaka skvísa þegar kom að brottför. Þarna var mitt mynstur komið sem í reynd var grunnurinn að ákveðinni átröskun, sem fór í gang hjá mér.

Til að gera langa sögu stutta borðaði ég alltaf meira á mig en ég missti á föstu- tímabilunum. Ég var komin í vítahring og fékk enga hjálp. Þar af leiðandi gat ástandið bara versnað sem það og gerði,” segir Esther og bætir við að andlega hliðin býði ekki síður hnekki en sú líkamlega þegar svona er komið. „Þunglyndi er alltaf alvarlegur fylgikvilli offitu og annarra átraskana. Ég var farin að velta fyrir mér tilgangi lífsins og vona hálfvegis eftir því að eitthvað kæmi fyrir mig. Ég gerði mér þó ekki grein fyrir þessu mikla þunglyndi fyrr en ég var komin áleiðis í bata enda er maður engan veginn dómbær á eigin líðan. Maður hættir smám saman að taka þátt í lífinu þegar hugurinn er lokaður inni í þessu mynstri. Maður missir tengingu við sjálfan sig, fólkið sitt og í reynd er sá, sem á við þennan sjúkleika að stríða, ekki gott foreldri. Maður þarf bara „stöffið” sitt. Allt annað verður aukaatriði.”

 

Fíkillinn þarf að vilja hjálpina

Þegar Esther Helga er spurð hvernig hún sjái starfsemi nýju MFM-miðstöðvarinnar við Ármúla fyrir sér, svarar hún því til að stefnan sé til að byrja með fyrst og fremst sú að veita ráðgjöf og fræðslu í formi viðtala og námskeiða.

Hún gerði sér svo vonir um að fljótlega verði hægt að opna meðferðarstöð fyrir matarfíkla líkt og SÁÁ tókst að gera fyrir áfengissjúklinga.

„Mitt starf mun felast í því að aðstoða fólk við að skoða hvort það eigi við vanda að stríða eða ekki. Það er auðvitað fyrsta skrefið.

Í framhaldinu þarf að ráðleggja fólki hvaða leiðir eru í stöðunni og hvert það geti leitað eftir aðstoð, en til þess að snúa vörn í sókn þarf matarfíkillinn auðvitað fyrst og fremst að vilja hjálp sjálfur til þess að taka á vandanum,” segir Esther, sem segist lengst af hafa starfað við að kenna lagvissum sem laglausum söng, en sjálf lærði hún söng og tónlistarfræði við Indianaháskólann í Bloomington.

En nú er Esther að ljúka námi við Ráðgjafaskóla Íslands og er nýútskrifuð af Bautar-gengisnámskeiði Impru um stofnun og rekstur fyrirtækja.