Varðandi fallið mitt í sumar eða það sem ég hef kallað „meðvitaða ákvörðun“ um að stíga út úr fráhaldi mínu.

Þar sem ég var búin að halda fráhaldið mitt í rúmlega ár var ég svo sannfærð um að það yrði ekkert mál fyrir mig að stíga út úr fráhaldi mínu, fá mér aðeins að borða í nokkra daga þær fæðutegundir sem ég hafði tekið út úr lífi mínu. Mér fannst ég finna til ákveðins frelsis.

Í fyrstu átti þetta útstig að vera yfir ákveðna helgi, þar sem fjölskyldan stóð saman að ættarmóti. Fjölskyldan mín samanstendur allt af miklu matarfólki en einnig af fólki sem er mjög veikt fyrir víni. Þar eru nokkrir alkóhólistar og einnig nokkrir sem vita sjálfssagt ekki að þeir séu alkóhólistar. Það kæmi mér einnig ekki á óvart þó þar væru allnokkrir matarfíklar.

Fíknin var því í hávegum höfð þessa helgi. Ég var með pínu samviskubit yfir að hafa leyft mér þetta en notaði jafnframt sem afsökun að ég skyldi „taka meðvitaða ákvörðun“. Það sem ég vissi hinsvegar ekki þarna var hve erfitt það var að komast aftur inn í fráhaldið. Það var eins og ég hefði hent allri skynsemi í burtu. Hvern einasta morgun ákvað ég að þetta væri dagurinn sem ég byrjaði aftur í fráhaldi, hvern einasta dag sveik ég þá ákvörðun.

 Alltaf var það eitthvað sem mig langaði óstjórnlega mikið í og ákvað að fá mér bara smá bita. Smá biti varð alltaf að einhverju stærra og meira og í hvert skipti tók ég ákvörðun um að fyrst ég væri fallin í dag, þá bara gæti ég fallið almennilega og byrjað á morgun. Með hverjum morgninum leið mér verr og verr. Ég fann hvernig ég þrútnaði út um fæturna, og fingurna hvað ég varð pirruð í líkamanum, samt hélt ég átinu áfram. Ég fór að skammast mín mikið fyrir hvernig ég hagaði mér og fannst ég vera algjör lúser bæði í mínum augum og annarra, sérstaklega fjölskyldu minnar. Þá byrjaði ég að laumast með matinn minn.

Ég byrjaði að versla meir og meir af óhollum fæðutegundum eins og kexi til að eiga eitthvað gott handa „hinum“ í fjölskyldunni. Þegar ég kom heim úr vinnunni þá fór ég í þessar birgðir og át. Eftir kvöldmatinn var ég lengi að ganga frá til að geta laumast í þetta fæði og reyndi eins og ég gat að láta ekki skrjáfa svo fjölskyldan mín heyrði ekki hvað ég var að gera, því ég borðaði líka alltaf holla matinn minn þegar þau sáu til, nema hvað ég minnkaði grænmetisskammtinn því ég borðaði svo margt annað yfir daginn og vildi passa upp á caloríuskammtinn!!!

Með hverjum deginum sem leið versnaði þetta ástand. Ég var orðin pirruð og stressuð í vinnunni og keypti mér því súkkulaði dag eftir dag til að japla á þar. Ekki bara eitt stykki heldur pakka með 5 stykkjum í. Ég var farin að kaupa mér nokkrum sinnum á KFC í hádeginu (vildi ekki að fjölskyldan vissi af því). Þegar ég keyrði síðan heim kom ég við í búðinni og keypti stóra múffu og kókómjólk sem ég fór með út í bíl og át og skilaði síðan umbúðunum í ruslafötuna fyrir utan búðina. Ég var alltaf svöng þegar ég keyrði heim. Ekki eins svöng í kvöldmatnum og síðan svöng um kvöldið. Þá vaknaði ég líka stundum svöng og hef 2sinnum farið um nóttina og laumast í eitthvað. 

Alltaf hef ég haldið að daginn eftir næði ég tökum á þessu. En í hvert sinn sem mig hefur langaði í eitthvað hef ég líka talið mér trú um að það væri í lagi að fá smá. 

Hugsandi svona til baka þá átta ég mig á mistökum mínum. Ég hætti að viðurkenna vanmátt minn og lifði þess í stað í þessum vanmætti. Ég tók stjórnina í mínar eigin hendur vitandi innst inni að ég gæti ekki ráðið við það vald.

Ég hætti að mæta á fundi og rækta andlega þáttinn nema þá bara á yfirborðinu.

Líkamleg og andleg líðan var orðin skelfileg. Líkaminn mótmælti, þrútnaði út og mig verkjaði. Ég var orðin pirruð, fann allt öðrum til foráttu, kenndi öðrum um hluti sem misfórust, skammaðist í fólki. Ég reyndi að stjórna öllu og öllum í kringum mig, vildi ráða.

Ég skammaðist mín mikið og fannst ég vera að bregðast bæði sjálfri mér og fjölskyldu minni. Þrátt fyrir alla þessa líðan og vitneskju um hve vel mér hefði liðið í fráhaldi mínu þá gat ég ekki ein og sjálf ráðið við ástandið.