Ég var búin að vera að þyngjast smátt og smátt og eftir að ég eignaðist barn þyngdist ég töluvert í viðbót. Ég hafði ekki farið oft í megrun, á unglingsárunum fór ég í strangan megrunarkúr og ákvað þá að þetta skyldi ég ekki gera aftur, tvisvar byrjaði ég á danska kúrnum og líkaði mjög vel og var í bæði skiptin hissa þegar ég féll.

Vorið 2009 sá ég viðtal í Vikunni við tvær konur og þær töluðu um MFM miðstöðina og létu vel af henni og þær litu svo svakalega vel út.  Um haustið sama ár var þessi grein ennþá í huga mér og ég hringdi í MFM miðstöðina, fékk viðtalstíma og stuttu síðar var ég byrjuð á námskeiði sem mér líkaði mjög vel.

Á örfáum dögum breyttist líðan mín, ég fann mikinn létti í höndunum og vellíðan í líkamanum. Ég fylltist von og bjartsýni á að nú væri ég búin að finna það rétta fyrir mig og það eina sem ég þurfti að gera var að fara eftir því sem mér var sagt. Eitt af því sem ég þurfti að gera var að vigta matinn minn og það var ekkert mál heima en ef ég fór annað leið mér illa að vigta fyrir framan aðra, þannig að ég ákvað að borða í veislum án þess að vigta og byrja svo aftur daginn eftir á prógrammi MFM, en þar sem ég fór út úr prógramminu smá gat ég alveg eins gert það almennilega og borðaði allt sem var í boði !

Þetta gekk fínt í örfá skipti en svo fór að verða erfiðara að byrja endalaust aftur og ég var með fráhvarfseinkenni í hverri viku síðustu vikurnar og náði svo á endanum ekkert að byrja í mínu fráhaldi aftur, reyndi í janúar 2010 en mér tókst það ekki.
Það leið heilt ár þar til ég fór aftur í meðferð hjá MFM og á þessu ári skoðaði ég sjálfa mig miðað við það sem mér hafði verið sagt í meðferðarprógramminu.  Mér hafði verið sagt að ég væri matarfíkill ! Ég vissi svosem að það var ekki alveg eðlilegt hvernig ég borðaði stundum, en átti ansi erfitt með að kyngja því að ég væri fíkill !  Ég sá hins vegar hvað ég átti sífellt erfiðara með mig eftir veislur, saumaklúbba o.þ.h. oft komu margir dagar á eftir sem ég var í mikilli laungun í sætindi og í eitt skiptið leið heil vika og þá held ég að það hafi verið sem ég byrjaði að sætta mig við að ég væri matarfíkill :
Ég get ekki sleppt því að fá mér góðgæti með kaffinu ef það er í boði, stundum langar mig að borða það alltsaman og það skiptir engu máli hvort ég er södd eða ekki, það hefur alltaf verið pláss fyrir nokkra mola. Oft hef ég verið með hugann við það hvort ég geti verið að fá mér svo og svo oft eða ört án þess að það sé dónalegt. Stundum hef ég beðið óþolinmóð eftir því að það fari að sjatna í mér svo ég geti farið að fá mér aftur. . . .
Ég var búin að finna mína réttu leið og vissi að hún var í MFM en það var bara aldrei rétti tíminn til að byrja: það var skírn framundan, sumarbústaðahelgi og svo átti ég afmæli um haustið og þá var svo stutt í jólin þannig að ég byrjaði í fráhaldi aftur í janúar 2011 og var  20 – 30 kg of þung.
Ég var sem önnur manneskja að byrja aftur í fráhaldi, ég sætti mig við að ég gat ekki gert þetta ein og þurfti á aðstoð að halda, ég var að þessu fyrir mig og mér var sama hvað öðrum fannst og númer eitt tvö og þrjú ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég er matarfíkill.Og ég gerði mér grein fyrir að í þetta skiptið var ég að fara í meðferð en í fyrra skiptið tók ég þetta sem megrun.  Mér hefur aldrei liðið jafnvel á ævinni. Ég er algjörlega laus við samviskubit, þessar vonleysishugsanir sem komu þegar mannfagnaður varr framundan og ég átti ,,engin föt“ þ.e.a.s. sem ég komst í (fataskápurinn minn var fullur af fötum sem voru aðeins of lítil).
Þegar ég fer í veislur eða partí skemmti ég mér vel án þess að drekka áfengi og það er eitt af því sem kom mér verulega á óvart því ég hélt alltaf að ég þyrfti vín til að geta sleppt fram af mér beislinu.
Ég hef ekki tekið það saman en er sannfærð um að það er töluvert ódýrara að lifa í fráhaldi og ef ég er ekki búin að spara mér í mat námskeiðið hjá MFM þá verður það amk fljótlega, ég er svo fegin að ég setti það ekki fyrir mig að borga annað námskeið og af hverju hefði ég átt að gera það ?  Ég sem setti það aldrei fyrir mig að baka td: rjómatertur, vöfflur eða pönnukökur með rjóma og bjóða fólki – bara til að ég hefði afsökun fyrir að borða þetta sjálf.

Í dag baka ég kökur og býð fólki en það er til að hitta og gleðja aðra, ekki til að hafa afsökun til að næra mína fíkn.

Núna er ég í fráhaldi og það koma ennþá ýmsir viðburðir ss. afmæli, skírnir, páskar o.þ.h. ég sé það núna að ég notaði þessa viðburði til að fresta því að taka á mínu vandamáli eða minni fíkn.
Fráhaldið getur verið erfitt en erfiðleikarnir eru allir á sama veg – ætla ég að láta eftir og leyfa öðrum að hjálpa mér og hlýða þeim sem eru að gera þetta rétt eða ætla ég að spóla í sama farinu og ég hafði verið að hjakka í síðustu 20 árin í vanlíðan. Erfiðleikar í fráhaldi eru miklu léttari en erfiðleikar í sukki !

 

Bráðum er komið heilt ár hjá mér í fráhaldi frá þeim fæðutegundum sem valda mér fíkn, en fyrst eru jólin og ég ætla mér að borða fullt að góðum mat án þess að verða með samviskubit eða að þurfa að taka mig á eftir jólin og svo þegar janúar kemur, verður það mánuður án vanlíðunar yfir því hvernig ég hagaði mér yfir jólin – já og allan desember.

Ég sé ekki eftir að hafa breytt minni hegðun gagnvart mat, en ég vildi að þetta hefði orðið fyrr í mínu lífi og ég óska þeim sem þess þurfa að fara þessa leið !