Þegar ég hugsa til baka þá hef ég alltaf haft mikinn áhuga á mat og þótt gott að borða. Ég man þó ekki eftir að hafa verið stöðugt að hugsa um mat, enda kannski ekki þurft að hugsa mikið um það þar sem amma mín lagði ríka áherslu á að ég fengi nóg. Var í raun alltaf að reyna að gefa mér að borða og tilbúin til að búa til allan þann mat sem mig langaði í. Ég var hinsvegar alltaf grönn sem barn og man ekki eftir að hafa haft lélega sjálfsmynd eða hugsað um aukakíló eða að mér þætti gott að borða. Ég var ekki matvönd en það var kostur í mínu uppeldi.
Ég hef notað allar hugsanlegar leiðir til að hemja át og þyngd, farið í alla þá megrunarkúra sem ég hef heyrt um.   Mínar fyrstu minningar tengjast allar mat. Amma var dugleg við að gefa mér að borða og áður en ég fór að sofa á kvöldin. Amma hafði alltaf miklar áhyggjur af því að ég fengi ekki nóg að borða. Hún var alltaf að gefa mér eitthvað sem mér fannst gott. Svo má einnig minnast á matarboðin hjá föðurömmu minni – þar borðaði maður þar til manni leið virkilega illa og gat varla gengið fyrir ofáti, enda hafði hún orð á því hvað væri gaman að gefa mér að borða því ég tæki svo hraustlega til matar míns. Síðasta átfyllerí var á þorrablóti hjá mömmu, ég át á við fjóra karlmenn og var gjörsamlega afvelta. Mér leið svo illa að ég var í andnauð og strax komu niðurrifshugsanirnar af fullum krafti, ég væri svo feit og ljót, gæti aldrei haft hemil á mér, gjörsamlega vonlaust tilfelli… var svo í megrun/aðhaldi í nokkra daga á eftir en fljótlega fór þetta að gleymast og ég hélt uppteknum hætti. Þá má einnig nefna síðustu dagana sem liðu áður en ég byrjaði í meðferðinni hjá MFM. Þá ætlaði ég sko að borða allt sem ég vissi að ég mætti ekki borða í framtíðinni. Ég var svo södd og mér var svo ómótt í þær tvær vikur frá því ég fór í viðtalið hjá MFM og þar til ég byrjaði í meðferðinni.
Éghef alltaf borðað mjög hratt. Þá næ ég að borða meira, en vandamál mitt er að ég verð aldrei södd. Yfirleitt er það þannig að ég hætt að borða þegar ég sé að ég er að borða meira en aðrir. Einnig ef maturinn var fyrir framan mig þá var ég sífellt nartandi, var t.d. búin að fá mér einu sinni á diskinn, en hélt svo áfram með gaffalinn ofan í pottunum. Því var ég að borða meira en ég vildi vera láta því aukabitarnir urðu mjög margir þótt ég hefði bara fengið mér einu sinni á diskinn… svo finnst mér núna að allir borði svo lítið, bjóði svo lítið fram af mat… en minn hugur segir mér enn að búa til nóg til að bjóða – af því að ég borða svo mikið sjálf…
Í dag er ég gjörsamlega hömlulaus þegar kemur að mat og svo sem einnig gagnvart mörgu öðru. Hef alltaf viljað gleypa heiminn í einum bita og það má því til sönnunar benda á námið, líkamsrækt, megranir, o.s.frv.
Ég hugsaði alltaf – á morgun byrja ég í átakinu… á mánudaginn byrjar nýtt líf… þannig hefur það verið síðustu ár og því hefur vandamálinu alltaf verið frestað…. þar til nú!!
Leyndarmál og ranghugmyndir
Mín helstu leyndarmál með mat hafa helst verið að reyna að láta líta út fyrir að ég borði minna en ég geti og geri. Mér finnst oft gott að koma heim og vera ein að fá mér eitthvað, sérstaklega eftir vinnu. Þá er enginn sem fylgist með mér. Kannski hefur enginn gert það en ég held að allir hljóti að hugsa – ekkert skrítið hvað hún er feit ef hún étur allt þetta! En svo er ekkert víst að aðrir séu yfirleitt nokkuð að hugsa um þetta. Allt gerist þetta í höfðinu á mér og ég ætla fólki að hugsa á ákveðinn hátt…
Það sem hefur stundum læðst að mér er að ég sé ekki matarfíkill. Ég sé ekki eins illa stödd af því að ég er ekki á þeysireið milli sjoppa eða skyndibitastaða, borði ekki í laumi, feli ekki matinn minn, borði fyrir og eftir veislur o.s.frv. Hinsvegar eru það ranghugmyndirnar sem eru í kollinum á mér sem ég á sameiginlegar með öðrum ofætum. Og þær er ég að vinna með núna. Þegar efinn læðist að mér þá er ég að hugsa að ég geti þetta alveg ein, þurfi enga aðstoð, er komin vel á veg, er komin í rútínuna o.s.frv. ég er reyndar hætt að hafa samviskubit yfir því ef ég t.d. tilkynni ekki breytingu fyrirfram og er kannski farin að taka of margar ákvarðanir sjálf. Samt sem áður með svolítinn móral fyrir því í undirmeðvitundinni, eins og ég sé að svíkjast um og ekki gera allt alveg rétt.   Ég efast hinsvegar ekki um að ég sé matarfíkill, þegar ég skoða málin ofan í kjölinn, þótt erfitt sé að viðurkenna það og sætta sig við að ég verð að taka út ákveðnar fæðutegundir sem gera mér ekki gott.
Það eru margar skrítnar hugsanir sem koma upp í kollinn á manni þegar maður er of feitur. Kaupa víð föt, láta sérsauma á sig, næla saman boli og sokkabuxur til að þær haldist uppi, kaupa endalaust af skóm og fylgihlutum því venjuleg föt passa ekki, fara í BB deildina í HM, þar sem fást föt sem passa.
Þá hef ég alltaf þegar ég fer í lyftu fengið kvíðakast, skyldi lyftan hlunkast niður þegar ég stíg inní hana!! Hef lent í því að hún fer aðeins niður þegar ég fer inní hana, mjög óþægilegt þegar maður er of feitur… heldur að allir taki eftir því! Svo fer ég yfir það í huganum hvað allir í lyftunni geta verið þungir samanlagt og hvað lyftan er skráð fyrir mikinn þunga!!
Þegar ég sest á stóla passa ég að þeir séu örugglega nógu traustir til að halda mér. Get ekki hugsað mér þær aðstæður að stóllinn sem ég sitji á hrynji!
Einnig eru flugvélasætin skelfileg… og hef þurft að setja beltin alveg út í enda til að koma þeim á mig. Og hef ekki getað sett borðin niður því bumban á mér er svo stór að borðið kemst ekki fyrir. Alveg ömurlegt… Reyndar var þetta í IE vél, en mér er alveg sama.
Svo er ég voðalega viðkvæm fyrir því ef mér er heitt. Þá er það vísbending um fituna, að ég sé í svo lélegu formi og allt of feit og finnst erfitt að höndla það.
Ég hef hinsvegar ekki velt því fyrir mér hvort ég fari tvær, þrjár eða fjórar ferðir að matarborðum í veislum. Það hefur ekki skipt mig máli. Í dag finnst mér gaman að gefa fólki að borða þrátt fyrir að vera í fráhaldi sjálf. Góði Guð, ef þú getur ekki gert mig mjóa, gerðu þá vini mína feita J