Saga spiksins – Sigur lífsins!

Fyrir rúmu ári labbaði ég á fund Estherar Helgu og viðurkenndi þar með að ég ætti við matarfíkn að glíma. Líkamlegt ástand mitt var þannig að ég var að sligast undir sjálfri mér, farin að finna verulega til í stoðkerfinu, maginn hættur að þola hvað sem var og meltingin úr skorðum gengin. Hreyfingarnar þannig að móðir mín, sem er að nálgast áttrætt var farin að ýta mér til hliðar þegar ég þóttist ætla að hjálpa henni við húsverkin um leið og hún lýsti því yfir að ég gæti þetta nú ekki, það væri of erfitt fyrir mig.
Ég hef alltaf verið stór og sterk og í 30 ár var ég búin að skella skollaeyrum við hættumerkjum sem hefðu átt að blasa við þegar ég með hverju ári bætti við mig svo og svo mörgum kílóum, þar til þau voru orðin 60-70 umfram þá þyngd sem ég var sáttust við mig í áður en allt fór úr böndum. Ég kenndi ýmsum utanaðkomandi hlutum um ástandið; Maður fitnar nú oft við að eiga börn; Sennilega hef ég fengið gersveppasýkingu, hún ruglar nú oft systemið; Mér leiddist og fékk mér því bita … o.s.frv.
En ég gerði mér þó grein fyrir því undir niðri að þetta væri ekki í lagi, í rauninni stórhættulegt. Þegar ég púaði og dæsti undan innkaupapokunum á leið heim úr búðinni vissi ég að þeir væru nú ekkert miðað við þau ósköp sem líkaminn puðaði með á hverjum degi.
Mér hefur alltaf þótt gott að borða – og viljað borða mikið. Það er eiginlega sama í hvaða horn ég lít, ég hef verið sólgin í flest, ekki bara sætindi, heldur það að vera helst alltaf pakksödd. Hafi einhver íjað að því að ég borðaði nú kannski of mikið hef ég tekið það sem áskorun um að fá mér bara meira.
Þrátt fyrir að vera nú ekki alveg sama um útlitið hef ég ekki verið neitt upptekin af því að fara í megrunarkúra, hef ekki farið í hvern kúrinn af öðrum. En ég hef nokkrum sinnum reynt að taka mig á, gengið vel af stað, en runnið á rassinn. Það hefur jafnvel ekki þurft nema eina súkkulaðikúlu til að eyðileggja góðan árangur og góð áform.
En þarna var ég sem sagt komin í meðferðarmiðstöð gegn matarfíkn og ákvað að reyna þessa aðferð – svona í eina viku til að byrja með. Ef það gengi myndi ég kannski halda út í mánuð. Með þessari ákvörðun þóttist ég sýna mikla fórnarlund. En þarna tókst ég á hendur nýtt ferðalag, lærði nýjar reglur og nýja hugsun. Með því starfi sem þarna fór fram tókst mér að ná tökum á átfíkninni, hemja púkann sem stöðugt kallaði á meiri mat, meiri sætindi. Með starfinu í stuðningshópnum lærði ég að ég er ekki ein í þessum sporum, ég er ekki sú eina sem legið hef í þessu djúpa fari. Ég lærði á sjálfa mig með því að spegla hegðun mína og venjur með stöllum mínum í hópvinnunni. Ég viðurkenndi vanmátt minn og lærði að treysta mínum æðri mætti til þess að leiða mig um betri veg.
Nú er liðið rúmt ár. Ég er orðin u.þ.b. 45 kílóum léttari, geng í fötum sem eru 4-5 númerum minni en þau sem ég kom í til fyrsta fundarins og allt er auðveldara. Ég sef betur, hvílist betur, á auðveldara með allar hreyfingar og öll störf, er glaðari og ánægðari með lífið. Gleði mín er þó lítil við hliðina á ánægju fjölskyldu minnar og vina sem farin voru að þjást (í hljóði) af áhyggjum yfir ástandi mínu. Það sem meira er, ég borða mikið af góðum mat, nammi-namm! Það sem er breytt er að nú hef ég hemil á því sem ég læt ofan í mig, borða það sem fer á diskinn með mikilli gleði og nautn, verð södd og sæl – og léttist.

Kæri lesandi.

Ástæðan fyrir því að þú lest þetta er annað hvort að þú ert forvitin/n eða þú átt við þyngdarvandamál að stríða.
Við þig sem ert forvitin/n segi ég, endilega lestu áfram því þú getur þá kannski sagt einhverjum frá sem þarf á þessu að halda.
Við þig sem átt við þyngdarvandamál að stríða segi ég, endilega lestu áfram því að mér finnst ég hafa frá merkilegu að segja og langar að koma með smá ábendingu.
Ég er ein af þessum sem hef átt við offituvandamál að stríða nánast alla tíð (kominn á miðjan aldur).
Ég leitaði til Estherar og hún greindi mig sem matarfíkil. Síðan þá eða í ca 250 daga hef ég fylgt hennar leiðbeiningum og ráðgjöf.  Árangurinn hefur ekki látið á sér standa 35 kg af.
Ég hef verið svo heppin að allt hefur gengið vel hjá mér og mér tekist að tileinka mér þær ráðleggingar og aðstoð frá þessari frábæru konu, sem hún Esther er.  Eins og Esther segir svo oft við okkur “Ef það er vandamál, þá er til lausn, trúðu mér”.
Og lausninar hennar felast í þessu prógrammi, en ekki uppskurði.
Mér finnst ég hafa verið svo gæfusöm að hafa kynnst þessari leið, áður en ég athugaði  möguleika á magahjáveitu.  Það er nefnilega svo gott að geta hugsað til þess, að ef ég á eftir að klikka í meðferðinni þá hef ég öll innyflin og stend bara í sömu sporum og ég var.
Í prógramminu eignast maður líka hóp af yndislegum vinum sem verða manni dýrmætari með hverjum degi.
Við þig sem ert eitthvað að hugsa:  Það borgar sig að prufa strax, ekki láta dýrmæt ár fara til spillis.

Hvers vegna núna?

Ég hef átt við offitu að stríða nánast frá fæðingu (er núna 52ára).
Það er engin kúr sem ég hef ekki prufað, það hefur stundum skilað sér en svo kemur það tvöfalt til baka.
Ég frétti fyrst af Esther í Vikuni þar sem var viðtal við hana. Ég hafði samband við hana á netinu og bað hana að láta mig vita ef yrði námskeið hjá henni.
Þegar maður er með brotna sjálfsmynd reiknar maður með að enginn muni eftir manni.
En þegar ég fékk póst frá henni svolítið seinna fannst mér  þarna vera kona á ferð sem stæði við sitt.
Ég hef oft spurt mig Hvers vegna get ég þetta núna? Ég er búinn að vera í fráhaldi í 250 daga og hef lést um 37 kg. Þetta er lengsta úthald hjá mér, en hvers vegna?  Ég veit að það er Esther að þakka. Hennar þekking á málinu er mikil og það sem skiptir máli að hún er búinn að ganga í gegnum þetta sjálf. Hún hefur lag á að sjá jákvætt í öllu og virðir okkur og svo er nærvera hannar mjög góð.
Svo ef þú er að leita þá er þetta rétta leiðin og það er ekkert skorið í burtu.
Dagurinn sem ég átti að fara að hitta konuna sem hafði “rifið” af sér mörg kíló og er komin í bata var skrítinn ! Viku áður hafði ég fengið símtal frá litlu systir þar sem ég lá veik heim og hjúfraði mig undir sæng. Hún sagðist vera með Vikuna, þar væri viðtal við konu sem væri matarfíkill. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við var systir mín að gera grín að mér eða var henni kannski ekki alveg sama um mig !!!
Hún endaði símtal okkar á því að ég myndi lofa því að fara og hitta þessa konu JÁ ÉG LOFA. Ekki gefast upp og fara í magaminnkun og þ.h. Þetta væri hægt án þess.
Ég lét tilleyðast og hringdi, ROSALEGA var það skítin tilfinning. Hinu megin á línunni var konan úr Vikunni. VÁ hún tók mér svo vel í símann að ég hugsaði það væri bara alveg eins og við hefðum þekkst alla ævi. Hún var búin að fara í gegnum þessa þrautagöngu og stendur sig frábærlega. Það að stíga næsta skref var heldur ekki auðvelt, það var að mæta á fund til hennar. Þegar að fundi lauk fann ég fyrir miklum létti – hún skyldi mig svo vel og hafði algjörlega komist á botninn EINS OG ÉG. Búin að fá nóg að burðast með þessi aukakíló og alla þá vanlíðan sem þessari fíkn fylgir. Ég hringdi stolt í litlu systir og sagðist búin á fundinum ég væri komin á blað í hóp sem hún væri að fara af stað með. Nokkru síðar hringir konan, sagði að hópurinn ætlaði að fara að hittast þann 6. júlí 2006. Var ég alltaf að spá hvernig gæti ég komið mér undan því að mæta ég var búin að lofa sjálfri mér svo og litlu systir að REYNA. Fram á síðustu mínútu var þessi hugsun ofarlega. En mér fannst ég skulda sjálfri mér það að reyna……og þar með hófst ævintýri mitt að nýju lífi. Skemmtilegar konur sem hún hafði sett saman í hóp, á öllum aldri. Komnar þarna og búnar að taka stórt skref. Það heillaði mig algjörlega að hitta þessar konur og sjá hvað þær voru tilbúnar að miðla af reynslu sinni og já búnar að reyna nánast allt í mörg ár EN án árangurs. Fíknin hafði heltekið okkur allar og ég var sko ekki ein um það. Og það að átta sig á þessari fíkn er mikill lærdómur. Esther Helga (konan í Vikunni) er algjör hetja að standa upp og láta gamlan draum minn rætast, finnst mér stórkostlegt. ÉG ætlaði alltaf að verða konan sem ætlaði sko að berjast fyrir því að þetta væri líka sjúkdómur alveg eins og með alkana þeir hafa kost á að fara í meðferð og ýmis úrræði en hvað með matarfíkla VIÐ sem erum matarfíklar þurfum að berjast fyrir viðukenningu eins og byrjunin var hjá ölkunum. Það hefur nú verið litið hornauga á mig þegar ég er spurð hvað ég sé eiginlega að gera og segist ég s.s. vera matarfíkill……sumt fólk stendur hreinlega og gapir. ÞÚ ert sko enginn matarfíkill. Ó JÚ að einhverju marki ég er kannski ekki versta tilfelli EN ég er fíkill hvað sem aðrir tauta og raula.
Ég hef verið í fráhaldi í 83 daga og 14 kílóum léttari…….
ÉG get varla líst því með orðum hvað þetta hefur verið mér frábært að komst í þetta fráhald og það með því að sleppa ALGJÖRLEGA HVEITI OG SYKRI. Fylgja ákveðnum ramma sem Esther Helga leggur upp með og þetta er búinn að vera gefandi og skemmtilegur tími. Ég er í framhaldshóp hjá henni og það að fá að deila þessu með henni og stelpunum er mér ólýsanlega mikils virði. Hvatningin og gullkornin sem koma frá þeim öllum og það að hafa fengið þá náð að ramba á réttu brautina er ÓLÝSANLEGT.
Eftir að hafa stigið þetta stóra skref og viðkennt að ég sé matarfíkill er hrein og klár frelsun. LOKSINS er ég ekki ein á báti – ein svona stór og mikil – ein svona sem ekki get stokkið út í búð og keypt mér flott föt – ein sem finnst lífið stundum tilgangslaust og svona er lengi hægt að telja upp. Fíknin búin að deyfa mann svo mikið að maður vissi ekki í þennan heim né annan. Því það er STAÐREYND að það er til LAUSN á ÖLLU.
Og trúið mér lausnin er skammt undan. Málið er bara að gefast EKKI UPP.
Þetta er búið að gefa mér NÝTT LÍF á ný og ég ætla ekki að kasta þessu öllu á dyr bara fyrir það eitt að geta SNÆTT hveiti og sykur.
Esther Helga er þvílíkur gullmoli að það er leitun að öðru eins. ÉG mæli hiklaust með MFM – og sért þú í vafa þá stígðu skrefið – ekki draga þetta lengur – því það er svo margt sem hægt er að njóta sé maður laus við þessa þrálátu fíkn – árin eru svo dýrmæt.
LAUSNIN ER TIL! OG KOMA SVOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOO.
Kveðja SJ

Reynslusaga 34 ára konu sem byrjaði í meðferð í júlí 2006

Þegar ég ákvað að leita mér hjálpar hjá MFM miðstöðinni var ég 114 kg og fannst ég hafa reynt allt til að grennast. Ég hef verið of þung síðan ég var barn og fyrir utan stutt tímabil á unglingsárunum hef ég alltaf verið þó nokkuð yfir kjörþyngd. Frá barnæsku byrjaði ég af þrótti, jákvæðni og elju í öllum megrunarkúrum og líkamsræktarátökum sem ég fann en alltaf vann fíknin og ég féll ég aftur í sama ofátið – Féll inn í heim matarfíkilsins, sem er líkt og heimur annara fíkla, einmanalegur, óheiðarlegur, fullur sjálfsvorkunnar og vanlíðunar. Matarfíkn á það einnig sameiginlegt með öllum öðrum fíknum að hún er sjúkdómur einangrunarinnar og þegar ég var í ofáti þá vildi ég helst borða ein.
Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum að ég ætti við fíkn að stríða og fór að sækja fundi hjá O.A. samtökunum. Þar vann ég 12 spora vinnu sem gerði mér gott og ég bý enn að þeirri reynslu. Aftur á móti var fráhaldið mitt á þeim tíma ekki nógu sterkt, því ég fór ekki í fráhald frá nógu mörgum af þeim fæðutegundum sem valda mér fíkn. Á endanum féll ég og í kjölfarið á því falli skráði ég mig í viðtal hjá MFM miðstöðinni. Ég trúi því að það veki von hjá öllum matarfíklum að hitta Esther Helgu ráðgjafa. Hún hefur náð ótrúlegum árangri og er einstök fyrirmynd fyrir fólk í leit að bata.   Eftir að hafa formlega verið greind matarfíkill af Esther Helgu hófst hópavinna einu sinni í viku sem stendur enn í dag. Ég hef verið með 4-6 yndislegum konum í hóp og ég hef hlakkað til hvers fundar. Esther Helga leiðir fundina og er fagmanneskja fram í fingurgóma, enda hefur hún náð að byggja upp mjög öflugt starf á stuttum tíma. Á hverju kvöldi sendi ég inn tölvupóst til MFM stöðvarinnar með mataráætlun fyrir næsta dag. Þannig næ ég að vera í fráhaldi einn dag í einu frá þeim matartegundum sem vekja hjá mér fíkn. Það er ólýsanlegt frelsi sem felst í fráhaldinu því nú þarf ég ekki lengur að hugsa um það á milli máltíða hvað ég ætla að borða næst. Máltíðirnar eru vel úti látnar og maður fær alltaf nóg. Núna á ég lifandi og fjölbreytt líf á milli máltíða og líf mitt verður ríkara með degi hverjum. Lífið snýst ekki lengur um mat og megranir.
 
Þegar þetta er skrifað hef ég fengið að eiga 81 dag í fráhaldi frá þeim matartegundum sem vekja hjá mér fíkn. Ég vigta mig einu sinni í mánuði og þegar tveir mánuðir voru liðnir hafði ég misst 9.6 kg. Með því að vinna þá andlegu vinnu sem krafist er af mér í meðferðinni, og með því að fylgja mataráætluninni einn dag í einu hef ég eignast nýtt, mun bjartara líf. Svona hefur líðan mín breyst síðan ég byrjaði:
–         Mér líður betur líkamlega, er búin að missa 9.6 kg
–         Méf finnst líf mitt vera á leið upp á við en ekki niður á við
–         Ég finn ekki fyrir fíkn í dag en var gagntekin af henni áður en ég byrjaði
–         Ég er bjartsýnni
–         Ég er þakklátari fyrir allt sem ég hef
–         Ég hef minni þörf fyrir að einangra mig, bæði þegar ég er að borða og þegar ég er ekki að borða
–         Ég hef fundið fyrirmynd í Esther sem ég lít upp til
–         Ég er byrjuð að hugsa jákvæðari hugsanir um sjálfa mig
–         Ég er komin með meiri sálarró
–         Ég lifi meira í núinu
–         Ég er sáttari við Guð og menn
Ef þú heldur að þú sért matarfíkill og ert komin/n í þrot þá mæli ég eindregið með þessari leið. Þú munt ekki verða fyrir vonbrigðum ef þú ert tilbúin/n að gefast upp.

Frá skjólstæðingi MFM miðstöðvarinnar

“Ég get varla lýst því með orðum hvað það hefur verið mér frábært að komast í þessa meðferð

og það með því að sleppa algjörlega hveiti og sykri og fylgja ákveðnum ramma.

Þetta er búinn að vera gefandi og skemmtilegur tími.

Ég er í stuðningshóp og það að fá að deila þessu með ráðgjafanum og stelpunum

í hópnum er mér ólýsanlega mikils virði.

Hvatningin og gullkornin sem koma frá þeim öllum og

það að hafa fengið þá náð að ramba á réttu brautina er ólýsanlegt”.