Síðustu 10 ár hef ég verið í aðhaldi. Reynt allar mögulegar megrunaraðferðir – ávaxtasafa – föstur – Herbalife – danska kúrinn – JSB-kúrinn …   ekkert hefur gengið til lengdar auk þess sem ég hef farið í milljón líkamsræktarátök, verið hjá einkaþjálfara og farið á líkamsræktarnámskeið.

Það að vera í fráhaldi hefur verið alveg ótrúlega auðvelt þegar ég hugsa til baka. Auðvitað eru margir dagar erfiðir en þó færri dagar en þegar ég var ekki í fráhaldi. Mér hefur núna, í þessari þriðju atrennu þótt erfitt með að hringja á veitingarstaði á undan mér. Gerði það hér áður án sérstakra vandkvæða. Þarf að æfa það betur. Ég hef náð það miklum árangri, bæði líkamlega og tilfinningarlega í fráhaldi að ég vona heitt og innilega að ég þurfi aldrei að snúa til baka. Ætla ekki að hugsa nema einn dag í einu og ekki fara á flug með það hvað ég ætli að gera í næstu fríum og ferðalögum. Mér líður svo vel og ég ætla núna að standa með sjálfri mér. Fráhaldið í forgang er það sem ég þarf að tileinka mér. Þá hef ég ekki verið alveg heiðarlega þegar kemur að breytingum, en ég á að tilkynna öll frávik. Mér hefur ekki þótt ástæða til að láta vita ef ég breyti, t.d. úr olíu í grænmetissósu ef ég er innan rammans. Þarna hef ég ekki getað látið af stjórn eins og ég á að gera. En ég er að vinna í því að tileinka mér þetta, að hringja alltaf.
Ég hef fallið tvisvar. Það var ekki gott. Ég man svo vel tilfinninguna um að vera allt of feit. Geta ekki gengið upp og niður stiga, vera alltaf sveitt, vera alltaf móð, vera að drepast í hnjánum, vera illt í liðamótum o.s.frv. Sérstaklega þegar ég drekk vín. Það er reyndar alveg ótrúlegt hvað það hefur gert mér gott að hætta að drekka. Sálarástand mitt hefur batnað um 99% og það er sá ávinningur sem ég vil ekki tapa. Auk þess er samviskubitið sem er samfara því að falla skelfilegt. Stöðugar sjálfsásakanir sem e.t.v. má segja að hafi verið deyfðar með áti. Það sem gerðist var að ég hætti í meðferðinni, fór í 12 spora samtök þar sem ekki er tilkynnt og fór að mæta á fundi. Þar tók ég allt sem ég heyrði að hinar gerðu og gerði að mínu, s.s. millibita og bara einu sinni á diskinn, en allur matur borðaður. Fljótlega fór allt úr skorðum því ég fór að borða risastóra millibita og gat aldrei stoppað mig af í „venjulegum“ skammtastærðum, eða að fá mér bara einu sinni á diskinn. Ég hef margsinnis reynt að fá mér sex litlar máltíðir á dag sem alltaf hafa endað með sex stórum máltíðum á dag. Ramminn hentar mér betur en ég hef í gegnum tíðina barist gegn fordómunum og hvað þetta er allt „ýkt“. Hinsvegar er það svo að ég get þetta ekki ein. Auðvitað hugsa ég oft um að ég þurfi allt mitt líf að tilkynna matinn minn og það er svolítið yfirþyrmandi, en ég næ sem betur fer að stoppa þær hugsanir og hugsa einn dagur í einu.  Í fyrstu meðferðinni minni 2008 og í annarri líka 2010 *(fór reyndar í einn mánuð 2009) var ég bara á leiðinni í megrun… ætlaði að ná af mér aukakílóunum, vinna aðeins í sjálfri mér og taka svo ákvörðun um framhaldið. Þetta virkaði ekki, í hvorugt skiptið því ég féll með glans, þótt fallið hafi verið hægt og hljótt, að því leyti að ég byrjaði að svindla einu sinni, svo var það auðveldara í næsta skiptið og svo á endanum var þetta komið í sama farið. Ég léttist um 18kg. í fyrstu meðferðinni, svo í fallinu át ég á mig 20kg. Í meðferð tvö léttist ég um 17.5 kg. læknaði mig aftur sjálf, hætti að mæta á fundi, hætti að tilkynna, hætti að nota verkfærin og þyngdist smátt og smátt um 25kg. Þá var komið að þriðja skiptinu núna í október 2011 og hef núna þegar þetta er skrifað (mars 2012), lést um 18.6kg. Ég hef nálgast þetta núna á allt annan hátt. Hef notað verkfærin mun meira, fer núna á 12 spora fundi og er komin með matar sponsor þar og ætla fljótlega að fara í gegnum sporin. Reyndar ekki fyrr en ég hætti í meðferðinni hjá MFM sem verður í lok maí. Þá hef ég í hyggju, kannski næsta haust að fara í gegnum sporin. Núna er þetta allt öðru vísi, skemmtilegir fundir, frábærar konur og mér finnst þetta skemmtilegt viðfangsefni og er meira tilbúin til að viðurkenna vanmáttinn og láta þetta í hendurnar á æðra mætti. Kannski er ég loksins tilbúin núna. Er samt enn að berjast við tilhugsunina um að ég sé „öðruvísi“ svona hálfgerður sjúklingur!!! En það hlýtur að lagast J
 
Meðferðin – ávinningur
Þetta prógramm byggist á 12 spora kerfi eins og mörg önnur meðferðarúrræði. Það hefur hentað mér vel og mér finnst gaman að velta þessu fyrir mér. Þrátt fyrir að ég hafi haft mína barnatrú þá má alveg segja að ég sé trúuð og fór oft með Faðir vorið áður en ég fór að sofa, löngu áður en ég byrjaði í meðferðunum og í þessum 12 spora samtökum. Hef ekki átt erfitt með að skilgreina minn æðri mátt, en að fela honum stjórnina hef ég átt erfitt með. Ég vil hafa hana sjálf – hafa stjórn á öllu og helst öllum J því hefur sú vinna verið svolítið erfið. Mér finnst þó núna í þessari þriðju atrennu þetta allt saman auðveldara og ég á auðveldara með að standa mér sjálfri mér. Þótt stundum sé erfitt að fela æðra mætti vandann. Mér líður hinsvegar miklu betur og er rólegri inní mér, er fljótari að stoppa neikvæðar hugsanir og reyni stöðugt að sleppa tökunum.
Að leita eftir fullkomnun er eitt af því sem ég hef ætíð gert. Enginn er hinsvegar fullkominn og maður á að leita að framförum, ekki fullkomnun.
Ég verð að njóta dagsins. Það er ótrúlega gott að geta það, ná að sleppa tökunum á hugsunum um framtíðina. Ég var svo upptekin af því að velta fyrir mér hvað ég geri þegar ég verð komin í kjörþyngd, hvað ég ætli að gera þegar dætur mínar eru fluttar að heiman, hvað ég ætli að gera þegar ég verði rík!! Hvað ég ætli að gera þegar… og þegar … og þegar…   Gleymi því að njóta líðandi stundar. Ég get ekkert gert við fortíðina, hún er liðin, ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér?… því er það eina sem ég get í rauninni gert er að lifa í núinu. Þetta er mjög lógískt en erfitt að lifa eftir. Njóta samveru með fólki sem manni þykir vænt um er það mikilvægasta sem til er og ég þarf að hætta að hugsa um að „þurfa að gera eitthvað ákveðið“ áður en ég t.d. sest niður og nýt þess að spjalla. Heimilisverkin eða önnur skylduverk fara ekkert.
Það hefur verið erfiðast að læra að biðja um hjálp og hvað þá að þiggja hana. Þeir sponsorar sem ég hef haft hafa allar reynt að gera mér það ljóst að þessi vinna hjálpar þeim líka. 12 sporið fjallar um að miðla af reynslunni – fara í þjónustu sem gerir hverjum og einum gott, bæði þeim sem biður um hjálp og þeim sem veitir hana. Ég þarf svo sannarlega að hætta að hugsa um að ég sé að trufla og verð að líta á þetta sem hluta af batanum. Ég hlakka allavega sjálf til að geta veitt þessa hjálp.
Þá hef ég ekki hringt ef mér hefur liðið illa. Man bara eftir einu skipti og það gekk vel. Þetta á bæði við um að spjalla og einnig líka um að tilkynna breytingar. En ég VERÐ að hugsa þetta á annan hátt. Líta á þetta sem aðstoð og ráð á jafningjagrunni – líða ekki eins og barni sem er að skrifta, með skömmustu tilfinningu og þar með viðurkenna vanmáttinn. Þetta er eitthvað sem allir geta grætt á og minnir alla á hvað sjúkdómurinn er lævís. Mér finnst hinsvegar betra að senda þetta í tölvupósti, þá á ég við vangaveltur, en það höfum við verið að gera í meðferðinni. Það nýtist mér, þótt ég lesi ekki alltaf allt, en hjálpar mér samt örugglega að fá frá hinum þótt ég sé svolítið enn í sjálfshyggjunni, finnst best að tala um mig!!! Hef mestan áhuga á mér, að segja frá mér!
Það er ótrúlegt þegar ég hugsa um hvað hefur áunnist við að vera í fráhaldi og í meðferð hjá MFM og mæta á 12 sporafundi .  Það er hugarróin. Ég fór á fund þar sem verið var að tala um þetta og þá allt í einu opnaðist einhver gátt. Ég allt í einu áttaði mig á því hvað hefur breyst. Ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið hvort ég sé að róast, hvort þetta sé aldurinn, hvað sé að gerast. Mér líður best heima hjá mér, næ ótrúlegri slökun og er róleg inní mér. Hafði ekki tengt þetta beint við hina andlegu vinnu sem ég hef verið að vinna undanfarið með hjálp MFM. Þetta varð einskonar hugljómun. Mér líður svakalega vel þegar ég fer að sofa á kvöldin, líður mjög vel á morgnana þegar ég vakna og svona yfirleitt alla daga. Auk þess að ná þessari hugarró, þá eru hlutir hættir að koma mér úr jafnvægi eins og áður, allavega í minna mæli.
Hlustaði á frábæran leiðara á 12 sporafundi um daginn þar sem hún talaði um mikilvægi þess að sponsa. Ég hef alltaf verið í vandræðum með að hringja – fundist ég vera að trufla. Hún benti hinsvegar á að það að sponsa, gæfi henni ótrúlega mikið. Við það næði hún að hætta að vera með sjálfa sig á heilanum, heldur gæti aðstoðað aðra í stað þess að einblína á eigin vandamál. Þá rann upp fyrir mér ljós… auðvitað er það þannig að þegar maður heyrir um vandmál annarra þá finnast manni eigin vandamál minni… þótt þau séu það ekki endilega.   Maður verður ekki eins sjálfhverfur. Þetta er akkurat það sem ég hef fundið fyrir – vera uppfull af sjálfri mér og verið með mig og mín vandmál á heilanum… hlakka til að fara að sponsa… en það ætla ég að gera um leið og ég get.